Leggja niður Íslandsflugið frá Kraká í haust

Flugáætlun ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air næsta vetur inniheldur ekki ferðir milli Íslands og Kraká.

Frá Kraká. Mynd: Lucas Albuquerque / Unsplash

Það var í lok síðasta sumars sem Wizz Air hóf að fljúga til Keflavíkurflugvallar frá borginni Kraká í suðurhluta Póllands. Og nú í vetur hafa þotur félagsins flogið hingað frá fimm pólskum borgum. Áætlun félagsins fyrir næsta vetur gerir aftur á móti ekki ráð fyrir ferðum til Kraká en áfram verður hægt að fljúga með Wizz Air héðan til Gdansk, Varsjár, Katowice og Wroclaw.

Auk allra þessara ferða til Póllands þá býður þetta ungverska lággjaldaflugfélag upp á reglulegar brottfarir frá Keflavíkurflugvelli til Búdapest, Vínarborgar og Lutonflugvallar skammt frá London.

Félagið lagði aftur á móti niður ferðir sínar hingað frá Vilnius og Riga ný í lok vetrar líkt og Túristi hefur áður greint frá. Sú fyrrnefnda dettur  þar með út af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar því Wizz Air hefur verið eitt um ferðirnar þangað. Áfram má gera ráð fyrir að AirBaltic sinni fluginu milli Íslands og Riga.

Vilnius og Kraká eru þó ekki einu borgirnar sem nú missa beint flug til Íslands því áætlun easyJet næsta vetur gerir ekki ráð fyrir neinum ferðum hingað frá Belfast á Norður-Írlandi.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.