Lítið gagn í fresti á opinberum gjöldum ef staðan heldur áfram að versna

Hallgrímur Lárusson hjá Snæland-Grímsson segist finna minna fyrir þeirri fækkun bandarískra ferðamanna sem nú er í kortunum en mörg önnur ferðaþjónustufyrirtæki. Hann telur útspil ráðamanna í gær ekki ganga nógu langt til að aðstoða fyrirtækin í krísunni sem kórónaveiran hefur valdið.

Hallgrímur Lárusson hjá Snæland-Grímsson.

„Það sjá það allir að það er ekkert í kortunum sem bætir stöðu fyrirtækjanna á næstu fjórum vikum. Ástandið á frekar eftir að versna ef við horfum raunhæft á stöðuna eins og hún er núna,“ segir Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Snæland-Grímsson, um tillögur ríkisstjórnarinnar um mánaðar greiðslufrest á tryggingagjaldi og opinberum gjöldum. Þarna telur hann að ekki sé gengið nógu langt og segist ekki sjá hvernig fyrirtæki eigi að vera betur í stakk búin að borga þessi opinberu gjöld um miðjan næsta mánuð í staðinn fyrir núna á mánudaginn.

Ástandið vegna kórónaveirunnar kom fyrst niður á fjölda ferðamanna frá Kína og fækkaði komum þeirra um 41 prósent í febrúar samkvæmt talningu Ferðamálastofu. „Við höfum ekki séð Kínverja hér síðan í febrúar og eftir að kórónaveiran barst til Evrópu þá hefur dregið mjög úr komum ferðamanna frá öðrum Asíulöndum,” segir Hallgrímur. „Bandaríkin eru ekki okkar aðal markaðssvæði, þannig að við finnum ekki eins mikið fyrir þeirri afbókunarhrinu sem hefur komið þaðan og margir aðrir. Viðskiptavinir okkar koma frá hinum ýmsu þjóðum sem er mikill kostur í stöðunni,” bætir hann við.

Hallgrímur segir að síðustu daga hafi verið töluvert um fyrirspurnir varðandi mögulegar breytingar bókunum en núna eru hópar aftur á móti farnir að afpanta ferðir til næstu átta til tíu vikna. „Sumarið lítur ágætlega út, að minnsta kosti ennþá.

Snæland-Grímsson á sér 75 ára sögu og Hallgrímur hefur sjálfur verið lengi í greininni. Aðspurður um muninn á núverandi krísu og efnahagshruninu 2008 þá segir hann að ferðaþjónustufyrirtækin í dag séu ekki eins sveigjanleg og þá. „Fyrirtækin hafa stækkað í takt við hinn mikla vöxt í greininni. Hjá okkur er rútuflotinn til að mynda mun stærri og starfsfólki hefur fjölgað.”

Fyrirtækið hefur nýlokið að taka á móti hópum bresku ferðaskrifstofunnar Thomson/TUI sem stendur árlega fyrir nokkrum ferðum hingað frá Bretlandi í byrjun árs. „Það var heppilegt eftir allt saman að Thomson fækkaði ferðunum hingað í ár og sú síðasta var því í lok febrúar. Áður hefur þetta náð fram í enda mars og ef það hefði verið staðan núna þá hefði sennilega þurft að gera töluverðar breytingar.”

Varðandi mögulegar aðgerðir vegna stöðunnar sem nú er kominn upp svarar Hallgrímur því til að pakka verði í vörn. „Nú skoðum við allan kostnað en við viljum ekki missa frá okkur fólk og munum gera allt til að komast hjá uppsögnum.“