Loftbrú til Kanaríeyja á morgun

Þrjár þotur halda frá Keflavíkurflugvelli á morgun til Tenerife og Las Palmas og sækja þá Íslendinga sem kjósa heldur að fara heim en að dvelja áfram úti. 

kef taska 860

„Við erum að bjóða fólki að koma heim á morgun og erum að hafa samband við þá farþega sem eiga pantaða heimferð með okkur til Íslands á næstu dögum,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn. Tvær þotur fara til Tenerife og ein til Las Palmas á Kanarí á morgun.

Þórunn, sem situr núna í kvöld vaktina í þjónustuveri Úrval-Útsýn, segir í samtali við Túrista að viðbrögð þeirra farþega sem búið er að hafa samband við hafa verið góð. Hún bendir líka á að það sé lítið fyrir fólk að hafa úti eftir að útgöngubann var sett á Spáni. Einnig er óljóst hversu lengi hótelhaldarar geta haldið veitingastöðum, börum og annarri þjónustu opinni miðað við núverandi aðstæður.

Þórunn segir að farið heim á morgun kosti þá sem eiga bókað far með Úrval-Útsýn ekki neitt aukalega. Sama gildir um farþega systurfyrirtækja ferðaskrifstofunnar, þ.e. Plúsferða og Sumarferða. Mögulega verða laus sæti fyrir fleiri farþega frá Tenerife og þau verða þá til sölu á heimasíðu Úrval-Útsýn.