Loka Bláa lóninu út apríl

„Með því að loka nú erum við ekki síður að horfa til þess að vernda starfs­fólk og draga úr smit­hættu þess en hjá fyrir­tækinu starfa tæp­lega 800 manns,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, um tímabundna lokun eins vinsælasta ferðamannastaðar landsins.

Mynd: Bláa lónið

Í ljósi heims­far­aldurs Co­vid-19 og fyrir­mæla ís­lenskra yfir­valda um hert sam­komu­bann hefur Bláa Lónið lokað starfstöðvum sínum tímabundið frá og með deginum í dag til og með 30. apríl nk. Lokunin tekur til starf­semi fyrir­tækisins í Svarts­engi og verslana á Lauga­veginum og í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­sonar samkvæmt tilkynningu.

„Á tímum sem þessum er mikil­vægt að við stöndum saman og gerum það sem í okkar valdi stendur til að hefta út­breiðslu Co­vid-19. Við vonumst til að hægt verði að opna fyrr en úti­lokum þó ekki fram­lengingu lokunar. Það mun koma í ljós eftir því sem þróuninni vindur fram hér­lendis og ekki síður er­lendis næstu vikur en um 98% af gestum Bláa Lónsins eru er­lendir ferða­menn,“ er haft eftir Grími Sæ­mundsen, for­stjóra Bláa Lónsins, í frétta­til­kynningu.

„Hvað varðar á­hrif lokunarinnar á störf þá verður reynt að verja þau eins og hægt er. Verið er að meta stöðuna þessa stundina en horft verður til úr­ræðis ríkis­stjórnarinnar um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta vegna minnkandi starfs­hlut­falls,“ segir Grímur jafnframt.

Í frétta­til­kynningunni jafnframt tekið fram að neyðar- og við­bragðs­á­ætlanir fyrir­tækisins hafa sannað gildi sitt. „Öflugt öryggi­streymi hefur staðið vaktina dag og nótt til að tryggja að fyrir­mælum yfir­valda sé fylgt og þannig öryggi starfs­fólks okkar og gesta. Með því að loka nú erum við ekki síður að horfa til þess að vernda starfs­fólk og draga úr smit­hættu þess en hjá fyrir­tækinu starfa tæp­lega 800 manns“, segir forstjórinn.

Bláa Lónið mun ekki stöðva alla starf­semi fyrirtækisins heldur ein­beita sér að innri verk­efnum, við­halds­málum, við­skipta­þróunar­málum, staf­rænni þróun og markaðs­málum.