Miklu fleiri íslenskir hótelgestir

Í janúar var metfjöldi íslenskra gistinátta á hótelum hér á landi. Skýringin gæti að hluta til legið í færri utanlandsferðum og reglulegri ófærð nú í ársbyrjun.

Frá Fosshótel Reykjavík. Mynd: Fosshótel

Þegar Íslendingur gistir eina nótt á íslensku hóteli þá jafngildir það einni gistinótt og á sama hátt teljast það fjórar gistinætur þegar íslenskt par dvelur í tvær nætur á hóteli. Og í nýliðnum janúar voru gistinætur Íslendinga á innlendum hótelum um 41 þúsund talsins. Það er um fimmtungi fleiri en í janúar í fyrra og þegar horft er lengra aftur þá er munurinn ennþá meiri.

Þannig voru gistinætur Íslendinga á íslenskum hótelum um fjórtán þúsund í janúar 2011. Í nýliðnum mánuði voru þær nærri þrefalt fleiri en hafa ber í huga að framboð á hótelgistingu hefur líka stóraukist síðastliðinn áratug. Þess má einnig geta að í janúar fækkaði utanlandsferðum Íslendinga um sex af hundraði samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það er vísbending um að fleiri hafi kosið að ferðast innanlands þennan fyrsta mánuð ársins.

Endurtekin ófærð í janúar og almennt vont veður gæti líka hafa haft sín áhrif á fjölda gistinátta Íslendinga innanlands í janúar. Tölur Hagstofunnar er þó ennþá ekki hægt að greina eftir landshlutum og því erfitt að leggja mat á þennan þátt.