Miklu svart­sýnni spá um stöðu flug­fé­laga

Alþjóðasamtök flugfélaga hafa uppfært fyrri spá sína um áhrif útbreiðslu kórónaveirunnar á fluggeirann. Nú eru horfurnar miklu verri en þær voru fyrir þremur vikum síðan.

Flugvélar við Gatwick flugvöll í London. Mynd: Gatwick Airport

Landa­mæri hafa lokast og ferða­frelsi almennt miklu takmark­aðra en dæmi eru um á frið­ar­tímum. Það eru því sára­fáir á ferð­inni og flug­félög fella niður flestar ferðir og senda starfs­menn sína heim. Óvissan sem nú ríkir verður svo til þess að bókanir á ferða­lögum fram í tímann eru litlar sem engar samkvæmt því sem fram hefur komið í viðtölum við forsvars­fólk flug­fé­laga og ferða­skrif­stofa.

Staðan í flugrekstri í dag er því miklu þyngri en hún var í byrjun mánaðar að mati sérfræð­inga IATA, alþjóða­sam­taka flug­fé­laga. Nú gera þeir ráð fyrir að tekur af farþega­flugi á heimsvísu gætu fallið um 44 prósent í ár í saman­burði við 2019. Það jafn­gildir um 252 millj­örðum dollara.

Þetta er ríflega tvöfalt meiri samdráttur en IATA hafði reiknað með í grein­ingu sem samtökin gáfu út þann 5. mars síðast­liðinn. Nýja spáin byggir á þeirri forsendu að núver­andi ferða­tak­mörk­unum verði fyrst aflétt almenni­lega eftir þrjá mánuði. Í fram­haldinu taki svo við tímabil þar sem eftir­spurn eftir flugi verður mun minni en í fyrra, m.a. vegna fyrir­séðar efna­hags­lægðar. Allt þetta gæti orðið til þess að eftir­spurn eftir farþega­flugi lækki í heim­inum 38 prósent í ár. Mest þó í Evrópu eða um 46 prósent.

Í tilkynn­ingu frá IATA segir að án opin­berrar aðstoðar við flug­geirann þá muni hann í raun hverfa. Er þar sérstak­lega kallað eftir stuðn­ingi sem styrki lausa­fjár­stöðu flug­fé­laga sem nemur um 200 millj­örðum dollara eða sem nemur um áttatíu prósent af tekjutapinu.

Alex­andre de Juniac, fram­kvæmda­stjóri IATA, hvetur stjórn­völd til að grípa til aðgerða og bendir á að nú þegar hafi nokkrar ríkis­stjórnir stutt við flug­félög sinna ríkja.

Í því samhengi má nefna að ríkis­stjórnir hinna Norð­ur­land­anna hafa allar boðið flug­fé­lögum aðstoð í formi lána­ábyrgða. Í Finn­landi, Danmörku og Svíþjóð er staðan reyndar önnur en hér á landi. Finnska ríkið á meiri­hluta í Finnair og Danir og Svíar fara með þrjátíu prósent hlut í SAS. Ríkis­stjórn Íslands hefur ekki boðað sérað­gerðir fyrir íslenskan flug­geira, hvorki Icelandair né önnur flug­félög. Norska ríkis­stjórnin sem ekki á lengur hlut í SAS hefur aftur á móti boðið Norwegian, SAS og fleiri flugrek­endum lána­ábyrgðir.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.