Miklu svartsýnni spá um stöðu flugfélaga

Alþjóðasamtök flugfélaga hafa uppfært fyrri spá sína um áhrif útbreiðslu kórónaveirunnar á fluggeirann. Nú eru horfurnar miklu verri en þær voru fyrir þremur vikum síðan.

Flugvélar við Gatwick flugvöll í London. Mynd: Gatwick Airport

Landamæri hafa lokast og ferðafrelsi almennt miklu takmarkaðra en dæmi eru um á friðartímum. Það eru því sárafáir á ferðinni og flugfélög fella niður flestar ferðir og senda starfsmenn sína heim. Óvissan sem nú ríkir verður svo til þess að bókanir á ferðalögum fram í tímann eru litlar sem engar samkvæmt því sem fram hefur komið í viðtölum við forsvarsfólk flugfélaga og ferðaskrifstofa.

Staðan í flugrekstri í dag er því miklu þyngri en hún var í byrjun mánaðar að mati sérfræðinga IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga. Nú gera þeir ráð fyrir að tekur af farþegaflugi á heimsvísu gætu fallið um 44 prósent í ár í samanburði við 2019. Það jafngildir um 252 milljörðum dollara.

Þetta er ríflega tvöfalt meiri samdráttur en IATA hafði reiknað með í greiningu sem samtökin gáfu út þann 5. mars síðastliðinn. Nýja spáin byggir á þeirri forsendu að núverandi ferðatakmörkunum verði fyrst aflétt almennilega eftir þrjá mánuði. Í framhaldinu taki svo við tímabil þar sem eftirspurn eftir flugi verður mun minni en í fyrra, m.a. vegna fyrirséðar efnahagslægðar. Allt þetta gæti orðið til þess að eftirspurn eftir farþegaflugi lækki í heiminum 38 prósent í ár. Mest þó í Evrópu eða um 46 prósent.

Í tilkynningu frá IATA segir að án opinberrar aðstoðar við fluggeirann þá muni hann í raun hverfa. Er þar sérstaklega kallað eftir stuðningi sem styrki lausafjárstöðu flugfélaga sem nemur um 200 milljörðum dollara eða sem nemur um áttatíu prósent af tekjutapinu.

Alexandre de Juniac, framkvæmdastjóri IATA, hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða og bendir á að nú þegar hafi nokkrar ríkisstjórnir stutt við flugfélög sinna ríkja.

Í því samhengi má nefna að ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna hafa allar boðið flugfélögum aðstoð í formi lánaábyrgða. Í Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð er staðan reyndar önnur en hér á landi. Finnska ríkið á meirihluta í Finnair og Danir og Svíar fara með þrjátíu prósent hlut í SAS. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki boðað séraðgerðir fyrir íslenskan fluggeira, hvorki Icelandair né önnur flugfélög. Norska ríkisstjórnin sem ekki á lengur hlut í SAS hefur aftur á móti boðið Norwegian, SAS og fleiri flugrekendum lánaábyrgðir.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.