Norðurlöndin sameinist um rekstur flugfélaga

Það er tilgangslaust fyrir norræn stjórnvöld að setja fé í flugfélög sem eru nú þegar á fallandi fæti. Í staðinn ætti að styrkja rekstur norrænu flugfélaganna með því að setja þau undir eitt móðurfélag.

Keflavíkurflugvöllur gæti orðið miðstöð fyrir Ameríkuflug norrænar flugvélasamsteypu að mati fyrrum framkvæmdastjóra SAS. Mynd: Isavia

Stærstu fyrirtækin í evrópskum flugrekstri eru þrjár ólíkar samsteypur. Sú stærsta er Lufthansa Group sem rekur samnefnt flugfélag í Þýskalandi auk stærstu flugfélögin í Sviss, Austurríki og Belgíu. Innan IAG er British Airways, hið írska Aer Lingus og svo Iberia og Vueling á Spáni. Þriðja risafyrirtækið er AirFrance/KLM sem á þessi tvö stærstu flugfélög Frakklands og Hollands auk lággjaldaflugfélagið Transavia. Til þessara þriggja samsteypa ættu ráðamenn á Norðurlöndunum að horfa núna þegar þeir standa frammi fyrir því að setja tugi og jafnvel hundruði milljarða króna í flugfélög landanna.

Þetta er mat Norðmannsins Eivind Roald, fyrrum framkvæmdastjóra hjá SAS, sem fer yfir þessa hugmynd sína í pistli í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv í dag. Tillaga Roald gengur í raun út á það að danska og sænska ríkið setji sína eignarhluti í SAS inn í nýtt móðurfélag og finnska ríkið leggi meirihlutaeign sína í Finnair þar inn líka. Norska ríkið skali Norwegian niður því enginn hafi, að mati Roald, áhuga á að taka yfir skuldasúpuna sem það félag situr í. Norwegian yrði svo í framhaldinu gert að lággjaldaflugfélagi sem myndi eingöngu sinna flugi innan Evrópu.

Hlutverk Icelandair í þessu nýja félagi er umtalsvert. Burtséð frá eignarhaldi á íslenska félaginu í dag þá leggur Roald til að Icelandair verði hluti af samsteypunni og haldi áfram ferðum til Norður-Ameríku. Hin félögin, þ.e. Finnair og SAS, hafi þá valkost um að fljúga sínum farþegum vestur um haf sjálf eða nýta sér tengingarnar frá Íslandi.

Tillaga Roald er sú að norræn stjórnvöld færu með 51 prósent í nýja móðurfélaginu og einkafjárfestar með afganginn. Hugmyndasmiðurinn tekur fram að auðvitað vakni hundruðir spurninga við svona fyrirkomulag og það yrði flókið að koma þessu á. Engu að síður væri betra að ráðast í það verkefni en að skjóta stoðum undir flugfélögin fjögur eins og staðan er í dag.