Norska ríkið ætlar að ábyrgjast lán til Norwegian og SAS

Þá er ljóst að norska lággjaldaflugfélagið Norwegian mun fá séraðstoð frá hinu opinbera.

Mynd: Norwegian

Forstjóri Norwegian hefur síðustu daga ítrekað að það standi tæpt hjá félaginu. Lausafé er af skornum skammti og á blaða­manna­fundi í lok síðustu viku áréttaði hann að félagið þyrfti svar frá norskum ráða­mönnum fljótt.

Í viðtali við Dagens Nærlingsliv í Noregi í gær útilokaði hann ekki að norska ríkið gæti orðið hlut­hafi í félaginu en þá yrði það að gerast án hefð­bund­innar áreið­an­leika­könn­unar. Fyrir þess háttar væri einfald­lega enginn tími nú þegar útbreiðsla kóróna­veirunnar er farin að valda meiri­háttar krísu í flug- og ferða­geir­anum.

Nú í kvöld sagði norska viðskipta­blaðið svo frá því að til stæði að veita Norwegian lána­ábyrð upp á þrjá millj­arða norskra króna frá norska ríkinu. Það jafn­gildir 37,5 millj­örðum íslenskra króna.

SAS sem einnig er stór­tækt í flugi í Noregi fær sömu­leiðis lána­ábyrgð frá norska ríkinu en þó uppá helm­ingi lægri upphæð.

Norwegian mun ekki fá nema tíu prósent upphæð­innar í fyrstu atrennu og þá aðeins ef almennir bankar eru til í að leggja tíu prósent mótframlag. Ef Norwegian nær svo að semja um lægri vexti og afborg­anir af núver­andi skuldum fær félagið 15 millj­arða í viðbót. Síðustu 19 millj­arð­arnir fást svo þegar staða Norwegian eru orðin stöðug.

Norska ríkið seldi tíu prósent hlut sinn í SAS fyrir nærri tveimur árum síðan en Svíar og Danir héldu eftir sínum hlutum og eiga í dag samtals 30 prósent í félaginu. Ríkis­stjórnir Svíþjóðar og Danmerkur gáfu út á þriðjudag að þau myndu sameig­in­lega ábyrgjast lán til SAS upp á rúma fjörtíu millj­arða króna.

Samtals hafa stjórn­endur SAS því núna aðgang að lána­ábyrgðum frá skandi­nav­ísku ríkis­sjóð­unum upp á nærri fimmtíu millj­arða króna.

Líkt og komið var inn á í viðtali Túrista við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair Group, þá bindur forsvars­fólk félagsins fyrst og fremst vonir við almennar aðgerðir en ekki sérstakar til handa Icelandair. Nú liggur aftur á móti fyrir að tveir af helstu keppi­nautum félagsins fá fyrir­greiðslur frá hinu opin­bera í Skandi­navíu.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar á virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.