Norwegian boðar til blaðamannafundar

Það er óhætt að segja að staða Norwegian flugfélagsins sé gríðarlega erfið þessa dagana. Í gær var helmingi starfsmanna sagt upp störfum og nú hafa stjórnendur þess boðað blaðamenn á sinn fund síðar í dag.

Jacob Schram forstjóri Norwegian Mynd: Norwegian

Gengi hlutabréfa í Norwegian hefur fallið um nærri áttíu prósent síðustu fjórar vikur og leiðin niður á við hefur verið sérstaklega hröð eftir að útbreiðsla kórónaveirunnar náði til Evrópu. Þetta þriðja stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu er mjög skuldsett og nú þegar reksturinn versnar dag frá degi þá hafa margir fjárfestar misst trú sína á félagið.

Ferðabann Trump sem hefst á miðnætti í kvöld kemur líka illa niðra á félaginu og til marks um það var helmingi starfsmanna félagsins sagt upp störfum seinni partinn í dag.

Nú í morgun hefur gengi hlutabréf í Norwegian aftur á móti rokið upp um nærri þrjátíu prósent en klukkan ellefu að norskum tíma, kl. tíu að íslenskum, sendi félagið frá tilkynningu um að Jacob Schram, forstjóri Norwegian, ætli sér að fara yfir stöðu félagins í ljósi kórónaveirunnar. Fundurinn er á dagskrá um kaffileytið og fer hann fram í gegnum fjarfundarbúnað þar sem Schram er fastur í London. Í gær breyttu nefnilega norsk stjórnvöld reglum sínum um sóttkví og nú eiga allir þeir sem koma til Noregs að fara í tveggja vikna heimasóttkví nema þeir komi frá hinum Skandinavíulöndunum.

Eftir að greint var frá þessum fundarboði Norwegian tók gengi bréfa í félaginu dýfu.

VIÐBÓT: Hér má sjá frétt Túrista um það sem fram kom á blaðamannafundinum.