Norwegian fellir niður 85 prósent flugferða

Stjórnendur norska flugfélagsins ætla að taka út stærstan hluta af flugferðum félagsins næstu vikur. Á sama tíma fjölgar þeim starfsmönnum sem sendir verða heim vegna minnkandi umsvifa.

Mynd: Norwegian

Útbreiðsla kórónaveirunnar hefur haft sérstaklega mikil áhrif á flugfélög enda ekki auðvelt að ferðast á milli landa þessa dagana. Og rétt í þessu bættist Norwegian í hóp þeirra evrópsku flugfélaga sem sker niður bróðurpart flugáætlunnar sinnar nú lok vetrar.

Samtals verður 85 prósent flugferða aflýst og á sama tíma eru störf 7300 starfsmanna félagsins í hættu. Þetta er töluverð viðbót við þær aðgerðir sem tilkynnt var um á fimmtudaginn í síðustu viku. Þá ætlaði Norwegian að fækka ferðunum um 40 prósent og segja upp um fimm þúsund manns, að minnsta kosti tímabundið.

Norwegian er það flugfélag sem flytur flesta farþega á milli Íslands og Spánar. Flugáætlun félagsins næstu vikur gerir ráð fyrir reglulegum ferðum hingað frá Alicante, Tenerife, Las Palmas, Barcelona og Ósló. Ennþá virðist vera hægt að bóka sæti í þessar ferðir en það gæti breyst innan skamms því í tilkynningu frá Norwegian segir að nú verði megin áhersla á flug milli norrænna áfangastaða og innanlandsflug í Noregi. Allt flug til Ameríku stöðvast en áfram verður flogið til Bangkok frá Skandinavíu.

Líkt og Túristi greindi frá fyrr í dag og sjá má hér fyrir neðan þá hefur Icelandair skorið hlutfallslega niður mun minna af brottförum en önnur evrópsk flugfélög.