Norwegian komst yfir fyrstu hindrunina

Nú í morgunsárið tilkynnti Norwegian að félagið hefði uppfyllt fyrstu skilyrðin sem norska ríkið setti í tengslum við fjárhagslegan stuðning sinn við flugfélagið.

Mynd: Norwegian

Því var vel tekið af fjárfestum þegar fjármálastjóri Norwegian gaf það út nú í morgun að tveir norrænir bankar ætluðu að taka þátt í lánveitingu til félagsins upp á 300 milljónir norskra króna. Það jafngildir um 3,8 milljörðum íslenskra króna. Það er norska ríkið sem ábyrgist lánið og er þetta fyrsti hluti af nærri fjörutíu milljarða króna lánaábyrgð sem norska ríkisstjórnin hefur tekið frá fyrir Norwegian. Hlutabréf í Norwegian hækkuðu umtalsvert í fyrstu viðskiptum dagsins í kauphöllinni í Ósló.

Skilyrðin sem stjórnendur, hluthafar og lánveitendur Norwegian þurfa að uppfylla til að fá afganginn af hinu opinbera fé eru aftur á móti ströng. Þannig þarf Norwegian að endursemja um hluta af skuldum og hækka eiginfjárhlutfallið upp í átta prósent en það er innan við fimm prósent í dag. Greinendur hafa almennt verið neikvæðir á að Norwegian takist að uppfylla þessi skilyrði enda er félagið nú þegar skuldum vafið og reksturinn erfiður. Þannig hafa endurteknar bilanir á hreyflum Boeing Dreamliner þota leikið félagið grátt svo ekki sé minnst á kyrrsetningu Boeing MAX þotanna.

Norwegian hefur lengi verið umsvifamikið í Íslandsflugi og sérstaklega nú í vetur þegar félagið bauð upp á reglulegar ferðir héðan til Tenerife, Las Palmas, Alicante, Barcelona, Madríd og Ósló. Ekki liggur fyrir hvort félagið taki upp þráðinn í Kanaríeyjafluginu næsta vetur því ennþá er ekki hægt að bóka ferðir með Norwegian héðan til Tenerife eða Las Palmas. Aftur á móti eru á boðstólum ferðir til Alicante og Barcelona nú í sumar og næsta vetur.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.