Norwegian komst yfir fyrstu hindr­unina

Nú í morgunsárið tilkynnti Norwegian að félagið hefði uppfyllt fyrstu skilyrðin sem norska ríkið setti í tengslum við fjárhagslegan stuðning sinn við flugfélagið.

Mynd: Norwegian

Því var vel tekið af fjár­festum þegar fjár­mála­stjóri Norwegian gaf það út nú í morgun að tveir norrænir bankar ætluðu að taka þátt í lánveit­ingu til félagsins upp á 300 millj­ónir norskra króna. Það jafn­gildir um 3,8 millj­örðum íslenskra króna. Það er norska ríkið sem ábyrgist lánið og er þetta fyrsti hluti af nærri fjörutíu millj­arða króna lána­ábyrgð sem norska ríkis­stjórnin hefur tekið frá fyrir Norwegian. Hluta­bréf í Norwegian hækkuðu umtals­vert í fyrstu viðskiptum dagsins í kaup­höll­inni í Ósló.

Skil­yrðin sem stjórn­endur, hlut­hafar og lánveit­endur Norwegian þurfa að uppfylla til að fá afganginn af hinu opin­bera fé eru aftur á móti ströng. Þannig þarf Norwegian að endur­semja um hluta af skuldum og hækka eigin­fjár­hlut­fallið upp í átta prósent en það er innan við fimm prósent í dag. Grein­endur hafa almennt verið neikvæðir á að Norwegian takist að uppfylla þessi skil­yrði enda er félagið nú þegar skuldum vafið og rekst­urinn erfiður. Þannig hafa endur­teknar bilanir á hreyflum Boeing Dreaml­iner þota leikið félagið grátt svo ekki sé minnst á kyrr­setn­ingu Boeing MAX þotanna.

Norwegian hefur lengi verið umsvifa­mikið í Íslands­flugi og sérstak­lega nú í vetur þegar félagið bauð upp á reglu­legar ferðir héðan til Tenerife, Las Palmas, Alicante, Barcelona, Madríd og Ósló. Ekki liggur fyrir hvort félagið taki upp þráðinn í Kana­ríeyja­fluginu næsta vetur því ennþá er ekki hægt að bóka ferðir með Norwegian héðan til Tenerife eða Las Palmas. Aftur á móti eru á boðstólum ferðir til Alicante og Barcelona nú í sumar og næsta vetur.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.