Nú aflýsir easyJet öllum ferðum frá Kefla­vík­ur­flug­velli

Frá og með deginum í dag mun breska lággjaldaflugfélagið easyJet leggja flestum sínum flugvélum.

Frá fyrstu ferð easyJet til Íslands árið 2012. Mynd: easyJet

Hið breska easyJet er þeirra fáu flug­fé­laga sem hefur haldið áfram að fljúga hingað til lands síðustu daga. Aðspurður um skýr­ingu á því þá segir Andy Cockburn, upplýs­inga­full­trúi easyJet, að félagið hafi haldið úti svoköll­uðum björg­un­ar­flugum síðustu daga auk stakra áætl­un­ar­ferða. Hann segir þó að frá og með deginum í dag muni nær allt flug á vegum easyJet leggjast af í dag og til marks um það þá hefur félagið fellt niður allar ferðir sínar til og frá Íslandi næstu daga.

Ákvörðun stjórn­enda easyJet að draga úr nær öllum ferðum frá og með deginum í dag var tekin áður en Boris Johnson, forsæt­is­ráð­herra Breta, setti á útgöngu­bann þar í landi.

Þó easyJet geri nú hlé á starf­semi sinni þá hefur félagið nýverið sett í sölu flug­ferðir næsta vetrar. Og þar er gert ráð fyrir nærri óbreyttu Íslands­flugi næsta vetur ef frá eru taldar áætl­un­ar­ferðir til Belfast á Norður-Írlandi. Þaðan hefur félagið flogið tvisvar í viku til Kefla­vík­ur­flug­vallar en nú eru þær brott­farir ekki lengur á boðstólum.

Eins og gefur að skilja er flug­geirinn í lausu lofti þessa dagana og það mun ekki vera talið útilokað að bresk stjórn­völd verði að koma flug­fé­lögum þar í landi til bjargar, þar á meðal easyJet.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.