Nú aflýsir easyJet öllum ferðum frá Keflavíkurflugvelli

Frá og með deginum í dag mun breska lággjaldaflugfélagið easyJet leggja flestum sínum flugvélum.

Frá fyrstu ferð easyJet til Íslands árið 2012. Mynd: easyJet

Hið breska easyJet er þeirra fáu flugfélaga sem hefur haldið áfram að fljúga hingað til lands síðustu daga. Aðspurður um skýringu á því þá segir Andy Cockburn, upplýsingafulltrúi easyJet, að félagið hafi haldið úti svokölluðum björgunarflugum síðustu daga auk stakra áætlunarferða. Hann segir þó að frá og með deginum í dag muni nær allt flug á vegum easyJet leggjast af í dag og til marks um það þá hefur félagið fellt niður allar ferðir sínar til og frá Íslandi næstu daga.

Ákvörðun stjórnenda easyJet að draga úr nær öllum ferðum frá og með deginum í dag var tekin áður en Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, setti á útgöngubann þar í landi.

Þó easyJet geri nú hlé á starfsemi sinni þá hefur félagið nýverið sett í sölu flugferðir næsta vetrar. Og þar er gert ráð fyrir nærri óbreyttu Íslandsflugi næsta vetur ef frá eru taldar áætlunarferðir til Belfast á Norður-Írlandi. Þaðan hefur félagið flogið tvisvar í viku til Keflavíkurflugvallar en nú eru þær brottfarir ekki lengur á boðstólum.

Eins og gefur að skilja er fluggeirinn í lausu lofti þessa dagana og það mun ekki vera talið útilokað að bresk stjórnvöld verði að koma flugfélögum þar í landi til bjargar, þar á meðal easyJet.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.