Öll flugfélög munu skaðast

Útbreiðsla kórónaveirunnar kemur sérstaklega harkalega niður á ferðageiranum. Forstjóri SAS útilokar ekki að flugfélög verði að fá ríkisaðstoð og segir ekkert félag komast heilt í gegnum núverandi erfiðleika. Starfsbróðir hans hjá AirBaltic segir ekki hægt að halda áfram eins og ekkert sé.

Rickard Gustafson forstjóri SAS. Mynd: SAS

Tvö hundruð og fimmtíu af sextán hundruð starfsmönnum lettneska flugfélagsins AirBaltic var sagt upp störfum í dag. Ástæðan er sá mikli niðurskurður sem gerður hefur verið á flugáætlun félagsins. Í farþegum talið er AirBaltic álíka stórt flugfélag og Icelandair. Það voru aðallega áhafnarmeðlimir sem misstu vinnuna í dag hjá AirBaltic samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar er haft eftir Martin Gauss, forstjóra félagsins, að þetta hafi verið erfið en nauðsynleg ákvörðun sem yki líkurnar á að hægt verði að endurráða starfsmennina á nýjan leik þegar ástandið verður eðlilegt á nýjan leik. „Einmitt núna er ekki hægt að halda áfram eins og ekkert sé, flugferðum hefur verið aflýst, flugvélar settar á jörðina og við sjáum skarpa og óvænta niðursveiflu í bókunum,“ segir Gauss.

Það er líka þungur tónn í þeim viðtölum sem Rickard Gustafson, forstjóri SAS, hefur veitt í dag. „Þegar viðskiptavinirnir kaupa ekki lengur flugmiða þá dettur botninn úr kerfinu,“ segir Gustafsson við Svenska dagbladet en í gær lækkaði hann laun sín og framkvæmdastjóra félagsins um 20 prósent næstu þrjá mánuði.

Biðlað hefur verið til annarra starfsmanna SAS um að taka á sig sömu launalækkun en þó gegn því að draga úr vinnu um sama hlutfall. Sænski forstjórinn útilokar ekki að gripið verði til uppsagna mjög fljótlega. „Það ríkir órói meðal almennings sem gerir það að verkum að margir afbóka ferðir og um leið pantar fólk ekki nýjar,“ segir forstjórinn um stöðuna sem nú er uppi. Hann útilokar ekki að félagið verði að fá aðstoð frá hinu opinbera ef áhrifa kórónaveirunnar varir lengi. Bæði danska og sænska ríkið eiga stóra hluti í SAS.