Ósanngjarnt að ætlast til að ferðaskrifstofur axli alla ábyrgðina

Sænskar ferðaskrifstofur eru í sömu stöðu og þær íslensku þegar kemur að ferðalögum næstu fjögurra vikna. Nú er skorað á þær sænsku að endurgreiða ekki ófarnar ferðir þverrt á það sem ferðaskrifstofurnar höfðu sagst ætla að gera.

strond nikos zacharoulis
Mynd: Nikos Zacharoulis / Unsplash

Bæði sænsk og íslensk yfirvöld beindu þeim tilmælum til þegna sinna í gær að ferðast ekki út í heim næstu fjórar vikur. Strax í kjölfarið gáfu sænskar ferðaskrifstofur út að allir þeir sem ættu bókaðar pakkaferðir, t.d. flug og hótel, á þessu tímabili gætu fengið endurgreiðslu. Íslenskar ferðaskrifstofur gáfu aftur á móti ekki út eins skýr skilaboð líkt og Túristi greindi frá í morgun.

Nú er afstaða sænsku ferðaskrifstofanna aftur á móti til endurskoðunar. Í tilkynningu frá samtökum sænskra ferðaskrifstofa segir nefnilega að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess að ferðaskipuleggjendur beri einir ábyrgð á farþegum sínum á þessum óvenjulegu tímum. Bent er á að reglur um pakkaferðir taki ekki til aðstæðna eins og nú eru uppi þar sem ferðalög út í heim eru í raun ómöguleg.

Samtök sænskra ferðaskrifstofa segja að nú sé það á borði yfirvalda að finna lausn á vandanum og hvernig ferðafólki verði komið heim eða því bætt það tjón sem það verður fyrir vegna ákvarðanna stjórnvalda um að leggjast gegn ferðalögum.