Ósátt við tregðu flugfélaga til að endurgreiða

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segist ekki fá skýr svör um hvenær flugfélög ætli að borga tilbaka ferðir sem felldar hafa verið niður. Hún kallar eftir því að dótturfélög Icelandair Group verði skilin frá samsteypunni ef ríkið grípur til séraðgerða til að styðja við flugreksturinn.

„Það yrði galið að ríkisstuðningur við Icelandair yrði nýttur til að styrkja dótturfélög flugfélagsins í samkeppni við fyrirtæki eins og okkar," segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn.

Nú þegar landamærum hefur víða verið lokað og yfirvöld beina þeim tilmælum til fólks að halda sig heima þá þurfa flugfélög og ferðaskrifstofur að endurgreiða viðskiptavinum sínum þær ferðir sem felldar eru niður vegna ástandsins. Jafnvel þó aðstæður séu óviðráðanlegar. Regluverkið varðandi endurgreiðslu á hefðbundnum pakkaferðum er sérstaklega skýrt og ber ferðaskrifstofum að endurgreiða ferðir innan tveggja vikna líkt og Neytendastofa og stjórnarráðið ítrekuðu í síðustu viku.

Flugfélög hafa aftur á móti mörg hver reynt að komast hjá endurgreiðslum og undan því kvarta neytendur og ferðaskrifstofur víða um heim. „Það gengur ekki að flugfélög fái að hunsa reglur um endurgreiðslur og bera þá fyrir sig óvenjulegar aðstæður á sama tíma og ferðaskrifstofur hafa aðeins fjórtán daga til að borga kúnnanum tilbaka,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, aðspurð um stöðu þessara mála hér á landi.

Hún segist sérstaklega ósátt við að Icelandair hafi til að byrja með aðeins boðið inneignarbréf og ætlast til að hver og einn viðskiptavinur myndi ganga sjálfur frá breytingum á farmiðum inn á heimasíðu flugfélagins. Þrátt fyrir að viðskiptin hafi verið milli flugfélagsins og ferðaskrifstofanna. Hún segir að forsvarsfólk Icelandair hafi látið af þessari kröfu á föstudag síðasta en ennþá engu svarað um hvenær von sé á endurgreiðslum. „Við eigum að endurgreiða kúnnanum og þurfum því upplýsingar um hvenær við eigum von á endugreiðslunni frá Icelandair,“ segir Þórunn og er greinilega mjög ósátt við stöðu mála.

Hún bendir jafnframt á að Icelandair eigi í mikilli beinni samkeppni við íslenskar ferðaskrifstofur í gegnum eignarhlut sinni í Iceland Travel og Vita. Sú fyrri er mjög stórtæk í skipulagningu Íslandsferða fyrir útlendinga og sú síðarnefnda er ein stærsta ferðaskrifstofa landsins í sölu á utanlandsferðum.

„Ef það kemur til þess að íslenska ríkið muni styðja við Icelandair með séraðgerðum þá verður samdægurs að skilja flugreksturinn frá þessum ferðaskrifstofum og setja Icelandair miklar skorður í sölu á pakkaferðum. Það yrði galið að ríkisstuðningur við Icelandair yrði nýttur til að styrkja dótturfélög flugfélagsins í samkeppni við fyrirtæki eins og okkar. Sérstaklega núna þegar Icelandair situr orðið á svona stórum hluta af markaðnum og alveg óvíst með hversu mikið framboð verður á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli næstu misseri,“ segir Þórunn.

Hún bætir því við að tengslin milli Icelandair og Vita séu það mikil að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, situr sem stjórnarformaður Vita og að Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, eigi líka sæti í stjórninni.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru þá hefur atvinnuvegaráðuneytið og Neytendastofa beint þeim tilmælum til neytenda að taka frekar við inneignarbréfum frá ferðaskrifstofum í stað þess að krefjast endurgreiðslu. Þórunn segist þó heldur hafa kosið að fá að halda eftir smá þóknun vegna þeirrar vinnu sem hafi verið innt af hendi bæði við sölu á ferðunum og úrvinnslu við endurgreiðslur. Einnig hefði mátt veita lengri tími til að greiða söluverðið til baka líkt og flugfélögin hafi reyndar upp á sitt einsdæmi ákveðið að gera.

Úrval-Útsýn er ein af þremur stærstu ferðaskrifstofum landsins þegar kemur að sölu utanlandsferða. Hinar eru Heimsferðir sem Arion banki á og svo Vita sem tilheyrir Icelandair Group. Aðspurð um hvernig Úrval-Útsýn standi að vígi í samanburði við keppinautanna þá segir Þórunn að staðan sé ágæt. „Það er engu að síður ekkert eðlilegt við það að flugfélag og banki séu að reka hér ferðaskrifstofur. Við sitjum því ekki við sama borð og þessi fyrirtæki, það er nokkuð ljóst.“


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.