Peningarnir streyma frá SAS

Um tvö hundruð flugliðar hjá SAS í Noregi, bæði flugmenn og flugfreyjur, hafa nú fengið uppsagnarbréf. Forstjóri flugfélagsins segir mikið um afbókanir sem kom illa niður á lausafjárstöðunni.

Rickard Gustafsson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

„Öll flugfélög munu skaðast,“ fullyrti Rickard Gustafsson, forstjóri SAS, í byrjun vikunnar þegar hann fór yfir versnandi stöðu félagsins sem rekja má til útbreiðslu kórónaveirunnar. Síðustu daga hefur tónninn í Gustafsson orðið enn þyngri. „Núna streyma peningarnir hratt út,“ hefur Dagens Industri í Svíþjóð til að mynda eftir honum í dag.

Ástæðan fyrir þessari neikvæðu þróun er sú, að sögn forstjórans, að nú panta fáir flugmiða en aftur á móti er mikið um afbókanir. Þar með er ekki mikið eftir af bókunum í kerfinu bætir hann við.

Gustafsson kallar því eftir aðgerðum frá stjórnvöldum sem gæti bætt stöðu flugfélaganna fljótt. „Við verðum að bregðast við núna en ekki eftir nokkra mánuði.“ Vísar hann þar til þess að sænskir ráðamenn hafa boðað breytingar á reglum um uppsagnir en þær eiga fyrsta að ganga í gildi þann 1. maí. Það er of seint að mati forstjórans.

Hann ítrekar þó að fjárhagstaða SAS sé sterk enda þekki félagið vel sveiflur í flugrekstri og sé ávallt tilbúið til að takast á við erfið tímabil eins og nú er runnið upp. Engu að síður berast nú fréttir af því að félagið hafi sent um tvö hundrað flugliðum í Noregi uppsagnarbréf. Fyrr í vikunni lækkaði Gustafsson og öll framkvæmdastjórn SAS laun sín um fimmtung og var biðlað til undirmanna að taka á sig sömu lækkun.

Forstjóri SAS er ekki sá eini sem nú biðlar til ráðamanna því starfsbróðir hans hjá Norwegian segir félagið aðeins þrauka í einhverjar vikur fái það ekki hjálp til að komast í gegnum þessa einstöku krísu.