Reikna með 30 prósent samdrætti á hótelum og gististöðum

Ríkið afsalar sér 300 króna tekjum af útleigu á hverju gistirými út næsta ári. Útreikningar stjórnarráðsins gera ráð fyrir að sú aðgerð kosti hið opinbera 1,6 milljarð króna.

Eitt af herbergjum Icelandair hótelanna Mynd: Icelandair hótelin

Ein þeirra þriggja aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti um helgina og snýr sérstaklega að ferðaþjónustunni er afnám gistináttaskatts út næsta ár. Í glærukynningu á vef Stjórnarráðsins er þessi aðgerð metin á 1,6 milljarð króna. Það jafngildir 76 milljónum á mánuði frá apríl í ár og til loka 2021.

Til samanburðar hafa fjárlög síðustu þriggja ára miðað við að gistináttaskatturinn skili á bilinu 1,3 til 1,4 milljarði króna á ári eða um 110 milljónum á mánuði. Þar með má segja að sérfræðingar stjórnarráðsins meta það þannig að sala á gistirýmum hér á landi dragist samtals saman um þrjátíu prósent á þessu tuttugu og eins mánaða tímabili.

Miðað við stöðuna í dag þá má ljóst vera að gistináttagjald hefði varla skilað ríkissjóði neinu næstu vikur. Og komandi sumar verður sennilega ekki upp á marga fiska eins og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, komst að orði nú um helgina í viðtali við Morgunblaðið.

Þessa fimm mánuði, apríl til ágúst, eru gistinæturnar vanalega nokkru fleiri en hina sjö mánuði ársins samtals. Það má því segja að gangurinn þurfi að vera góður frá hausti og út næsta ár svo fullyrða megi að framlag ríkisins, með tímabundinni niðurfellingu gistináttagjalds, verði 1,6 milljarður króna.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.