Rétt um 140 starfs­menn áfram í fullri vinnu hjá Icelandair Group

Það eru miklar uppsagnir framundan hjá Icelandair og stærsti hluti starfsmanna fer í tímabundna vinnu. Framkvæmdastjórar verða allir áfram í fullu starfi en á lægri launum.

Mynd: Icelandair

Um 240 starfs­mönnum Icelandair verður sagt upp störfum en það jafn­gildir um fimm prósent af heildar starfs­manna­fjölda hjá Icelandair samsteyp­unni. Til viðbótar skerðist starfs­hlut­fall 92 prósent starfs­fólks en þó mismun­andi mikið samkvæmt upplýs­ingum frá fyrir­tækinu. Þessar breyt­ingar eru í samræmi við þau úrræði sem ríkis­stjórnin kynnti á laug­ardag.

Miðað við ofan nefndan niður­skurð þá verða rétt um 140 starfs­menn eftir í fullu starfi hjá Icelandair í kjölfar þessara breyt­inga og munu þeir lækka um tuttugu prósent í launum. Fram­kvæmda­stjórar lækka um fjórðung og laun forstjóra og stjórnar lækka um þrjátíu prósent. Öll yfir­stjórn félagsins mun áfram vera í fullu starfi.

„Þetta eru sögu­legir tímar þar sem heims­far­aldur geisar sem hefur haft gríð­arleg áhrif á flug og ferðalög. Mikil­væg­asta verk­efnið núna er að tryggja rekstr­ar­grund­völl Icelandair Group til fram­tíðar. Þær aðgerðir sem við kynntum fyrir starfs­fólki okkar í dag eru sárs­auka­fullar en nauð­syn­legar til að takmarka áhrif þeirra aðstæðna sem uppi eru á rekstur og sjóð­streymi félagins,” er haft eftir Boga Nils Boga­syni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynn­ingu.

Þar segir jafn­framt að vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar hafi forsendur fyrir milli­landa­flugi og ferða­lögum breyst veru­lega á skömmum tíma. Til marks um það þá heldur félagið úti mun færri ferðum en ætlunin var samkvæmt tilkynn­ingu í síðustu viku. Þá var gert ráð fyrir þrjátíu prósent færri ferðum sem var nokkru minni niður­skurður en forsvars­fólk flestra annarra flug­fé­laga boðaði. Í dag flýgur Icelandair hins vegar rétt um fjórtán prósent af upphaf­legri flugáætlun.