Rétt um 140 starfsmenn áfram í fullri vinnu hjá Icelandair Group

Það eru miklar uppsagnir framundan hjá Icelandair og stærsti hluti starfsmanna fer í tímabundna vinnu. Framkvæmdastjórar verða allir áfram í fullu starfi en á lægri launum.

Mynd: Icelandair

Um 240 starfsmönnum Icelandair verður sagt upp störfum en það jafngildir um fimm prósent af heildar starfsmannafjölda hjá Icelandair samsteypunni. Til viðbótar skerðist starfshlutfall 92 prósent starfsfólks en þó mismunandi mikið samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Þessar breytingar eru í samræmi við þau úrræði sem ríkisstjórnin kynnti á laugardag.

Miðað við ofan nefndan niðurskurð þá verða rétt um 140 starfsmenn eftir í fullu starfi hjá Icelandair í kjölfar þessara breytinga og munu þeir lækka um tuttugu prósent í launum. Framkvæmdastjórar lækka um fjórðung og laun forstjóra og stjórnar lækka um þrjátíu prósent. Öll yfirstjórn félagsins mun áfram vera í fullu starfi.

„Þetta eru sögulegir tímar þar sem heimsfaraldur geisar sem hefur haft gríðarleg áhrif á flug og ferðalög. Mikilvægasta verkefnið núna er að tryggja rekstrargrundvöll Icelandair Group til framtíðar. Þær aðgerðir sem við kynntum fyrir starfsfólki okkar í dag eru sársaukafullar en nauðsynlegar til að takmarka áhrif þeirra aðstæðna sem uppi eru á rekstur og sjóðstreymi félagins,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar hafi forsendur fyrir millilandaflugi og ferðalögum breyst verulega á skömmum tíma. Til marks um það þá heldur félagið úti mun færri ferðum en ætlunin var samkvæmt tilkynningu í síðustu viku. Þá var gert ráð fyrir þrjátíu prósent færri ferðum sem var nokkru minni niðurskurður en forsvarsfólk flestra annarra flugfélaga boðaði. Í dag flýgur Icelandair hins vegar rétt um fjórtán prósent af upphaflegri flugáætlun.