Samdrátturinn hjá Icelandair er meiri en nemur öllu Íslandsflugi Lufthansa

Það eitt að Icelandair fellir niður tvö prósent af ferðum sínum til Íslands jafnast á við umsvif tveggja af stærstu flugfélögum Evrópu á Keflavíkurflugvelli. Samtals dregst sætisframboð Icelandair saman um 14 til 16 þúsund sæti.

Það kemur fátt í veg fyrir að farþegum á Keflavíkurflugvelli fækki áfram nokkuð hratt. Mynd: Isavia

Vegna útbreiðslu nýju kórónaveirunnar hefur eftirspurn eftir flugi minnkað til muna á heimsvísu. Flugfélög hafa því dregið úr framboði og frekari niðurskurður er boðaður vegna óvissunnar. Hjá Icelandair er ætlunin að aflýsa um áttatíu flugum í mars og apríl en það er um tvö prósent af flugáætlun félagsins þessa tvo mánuði samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu. „Áætlaðar flugferðir félagsins í mars og apríl eru rúmlega 3.500 samtals,“ segir þar jafnframt.

Þrátt fyrir að hlutfallið sé ekki ýkja hátt þá verður að horfa til þess að Icelandair er langumsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Í janúar stóð félagið fyrir rúmlega sex af hverjum tíu áætlunarferðum samkvæmt talningu Túrista. Og núverandi flugáætlun Keflavíkurflugvallar gerir ráð fyrir að Icelandair hafi samtals á boðstólum um 705 þúsund flugsæti til og frá landinu í þessum mánuði og þeim næsta.

Með því að aflýsa tvö prósent af ferðunum þá detta út að minnsta kosti um fjórtán þúsund flugsæti í mars og apríl. Þau gætu reyndar orðið allt að sextán þúsund ef félagið dregur töluvert úr notkun breiðþota á tímabilinu.

Þessi niðurskurður í flugáætlun Icelandair jafnast á við Íslandsflug tveggja stærstu flugfélag Evrópu. Þannig gerir núverandi flugáætlun British Airways ráð fyrir að sætaframboð í ferðum félagsins milli Íslands og London nemi um 18 þúsund sætum í mars og apríl. Þess tvo mánuði verða svo aðeins tæplega 13 þúsund sæti í boði í flugi Lufthansa hingað frá Frankfurt.

Það er þó ekki útilokað að þessi tvö stóru flugfélög geri breytingar á ferðum sínum til Íslands á næstunni. Þar hefur nefnilega verið boðaður samdráttur en stjórnendur evrópskra flugfélaga hafa beðið með að fella niður ferðir töluvert af ferðum yfir háannatímann vegna ótta við að missa notkunarrétt á afgreiðslutímum á flugvöllum.

Reglurnar gera nefnilega ráð fyrir aðflug félög verði að nota tímana í um áttatíu prósent tilvika. Annars verði þeim úthlutað til annarra. Á blaðamannafundi í Brussel í vikunni sagði forstjóri Lufthansa að það yrði að fást undanþága því annars gætu flugfélög neyðst til að fljúga tómum flugvélum. Hann ítrekaði þó að það yrði fáranleg aðgerð út frá umhverfissjónarmiðum.