Samdrátturinn jafnast á við umsvif WOW

Áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í febrúar fækkaði um fjórðung. Það er sama vægi og WOW air hafði á flugvellinum á sama tíma í fyrra.

Mynd: Isavia

Skúli Mogensen og aðrir stjórnendur WOW air höfðu verið með niðurskurðarhnífinn á lofti þegar komið var fram í febrúar í fyrra. Leiðakerfi flugfélagsins hafði því dregist saman og ferðunum fækkað. Engu að síður stóð WOW air fyrir rétt um fjögur hundruð brottförum frá Keflavíkurflugvelli í febrúar í fyrra.

Í nýliðnum febrúar fækkaði svo áætlunarferðunum frá Keflavíkurflugvelli um nærri nákvæmlega sömu tölu samkvæmt talningum Túrista. Hlutfallslega nam samdrátturinn um fjórðungi sem jafngildir vægi WOW air í umferðinni um flugvöllinn í febrúar í fyrra eins og sjá má myndinni hér fyrir neðan.

Það verður þó að setja tvo fyrirvara við þennan samanburð milli febrúar í fyrra og í ár. Í fyrsta lagi þann að nú er hlaupaár og því voru 29 dagar í nýliðnum mánuði sem vegur upp á móti samdrættinum. Aftur á móti var fleiri ferðum aflýst að þessu sinni vegna veðurs.

Af þeim sökum er kannski best að horfa til þess hve margar brottfarir voru á dagskrá Keflavíkurflugvelli á degi hverjum. Í febrúar í fyrra voru þær 56 en 42 að þessu sinni. Munurinn því nákvæmlega 25 prósent eða fjórðungur.