Samgöngustofa skoðar fjárhagskröfur til flugfélaga

Það er eitt af verkefnum Samgöngustofu að fylgjast með rekstrarhæfi flugfélaga. Eftirlitið er ávallt í samræmi við aðstæður og áskoranir á hverjum tíma samkvæmt svari frá stofnuninni.

Mynd: Isavia

Staða flugfélaga hefur veikst meira en margra annarra fyrirtækja í þeirri krísu sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur valdið. Tekjur flugfélaganna eru nefnilega litlar sem engar þessa dagana enda búið að loka landamærum eða setja á ferðabönn. Stjórnendur flugfélaga hafa því skorið verulega niður flugáætlanir og gera má ráð fyrir að í þeim þotum sem eru á ferðinni séu mörg laus sæti.

Til marks um hvað staðan er alvarleg þá sagði Icelandair upp 240 starfsmönnum í morgun og lækkaði starfshlutföll 92 prósent starfsmanna til viðbótar.

Það er hlutverk Samgöngustofu að fylgjast með rekstrarhæfi flugfélaga og í svari frá stofnuninni, við fyrirspurn Túrista, segir að eftirlitið sé ávallt í samræmi við aðstæður og áskoranir á hverjum tíma. „Samgöngustofa er í miklu sambandi við alla íslenska flugrekendur þar sem ráðstafanir til aðlögðunar þessu nýja ástandi eru til skoðunar, þ.m.t. atriði sem varða fjárhagskröfur,“ segir í svarinu. En í lögum um loftferðir segir að ráðherra sé heimilt að setja frekari reglur um skilyrði flugrekstrar, þar á meðal þær fjárhagskröfur sem gerðar eru til flugrekenda.

Í dag eru tíu fyrirtæki með leyfi frá Samgöngustofu til farþegaflugs samkvæmt vef Samgöngustofu.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar á virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.