Segir áhugavert að sjá hver útfærslan á aðgerðum ríkisstjórnarinnar verður

Útbreiðsla kórónaveirunnar hefur haft gríðarleg áhrif á hagkerfi heimsins og ekki síst á ferðaþjónustuna eins og fram kom í máli forsvarsfólks ríkisstjórnarinnar í dag þar sem aðgerðir til stuðnings greininni voru viðraðar. Framkvæmdastjóri SAF segir afar jákvætt að þetta skref sé stigið.

Ferðafólk í Reykjavík. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Við fögnum þessum tillögum sem ríkisstjórnin kynnti fyrr í dag,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að grípa til. Þar er meðal annars horft til tímabundins afnáms á gistináttaskatti og samstarfs við fjármálageirann um að „veita lífvænlegum félögum súrefnis sem eiga við lausafjárskort að stríða“ eins og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, komst að orði á blaðamannafundi fyrr í dag. Markaðsátak á Íslandi sem áfangastað er einnig í vinnslu.

„Með þessum tillögum gefur ríkisstjórnin afdráttarlaust út að hún stendur með atvinnulífinu í landinu til þess að minnka efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar þessa faraldurs sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er afar jákvætt og það verður áhugavert og mikilvægt að sjá hvernig útfærslan verður á þessum aðgerðum. Atvinnulífið er að sjálfsögðu tilbúið að vinna með stjórnvöldum á allan þann máta sem mögulegt er til þess að finna út úr því,“ segir Jóhannes Þór.

Hann ítrekar að staðan í dag sé alvarleg og þegar farin að hafa töluvert mikil áhrif á fyrirtækin. Þannig eru nýbókanir í algjöru lágmarki. „Við erum núna stödd á helsta bókunartímabilinu fyrir háönn ferðaþjónustunnar fyrir sumarið. Ef þetta stendur mjög lengi þá mun það hafa grafalvarleg áhrif á háönn ferðaþjónustunnar og þar með á stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu,“ bætir Jóhannes Þór við.