Samfélagsmiðlar

Sérstaða Icelandair ef norska ríkið bjargar Norwegian

Finnskir, sænskir og danskir ráðamenn fara fyrir stórum hlutum í Finnair og SAS. Nú gæti norska ríkið á ný eignast hlutabréf í flugfélagi og þar með yrði Icelandair eina norræna millilandaflugfélagið sem er alfarið í einkaeigu.

Þotur SAS og Norwegian á Kaupmannahafnarflugvelli.

Óvissan um framtíð Norwegian er mikil þessa dagana og umræðan í Noregi minnir um margt á spennuna hér á landi fyrir ári síðan þegar WOW air var á leið í þrot. Líkindin með félögunum tveimur eru líka töluverð þó Norwegian sé vissulega margfalt umsvifameira en WOW air var.

Annar stór munur á félögunum tveimur er sá að það norska er skráð á hlutabréfamarkað. Stjórnendur þess þurfa því að veita reglulegar upplýsingar um reksturinn. Gríðarlegar skuldir eru því ekkert leyndarmál og nú þegar tekjurnar eru í lágmarki, vegna útbreiðslu kórónaveirunnar, þá hefur vandi Norwegian margfaldast. Í lok síðustu helgi biðlaði því Jacob Schram, forstjóri flugfélagsins, til norskra stjórnvalda um aðstoð við að bæta lausafjárstöðu félagsins.

Þegar þarna var komið við sögu hafði gengi hlutabréfa í félaginu lækkað um áttatíu prósent frá því að krísan vegna útbreiðslu kórónaveirunnar hófst fyrir alvöru. Eftir þetta neyðarkall forstjórans lækkaði gengi bréfanna ennþá meira. Í morgun rauk það hins vegar upp í kjölfar frétta um að norsk stjórnvöld væru að skoða hvernig þau gætu komið félaginu til bjargar.

Sú von dofnaði þó um hádegisbilið í dag þegar varaformaður viðskiptanefndar norska Stórþingsins sagði það ekki áhugavert að kaupa gríðarlega skuldsett fyrirtæki sem spákaupmenn halda uppi verðinu á. Í framhaldinu fór gengi hlutabréfanna að dala á ný.

Norskir ráðamenn hafa samt ekki ennþá gefið það endanlega frá sér að koma Norwegian til bjargar. Og þá jafnvel með því að koma inn með nýtt hlutafé en norska ríkið hefur áratuga reynslu af flugrekstri í gegnum eignarhald sitt á SAS. Norska ríkið seldi aftur á móti tíu prósent hlut sinn í því félagi fyrir tæpum tveimur árum síðan og voru bréfin seld þegar gengi SAS var tvöfalt hærra en það er í dag.

Á næstu dögum kemur svo í ljós hvort norska ríkið eignast á ný stóran hlut í flugfélagi og haldi Norwegian í loftinu lengur. En það sænska og danska eiga ennþá sín hlutabréf í SAS og ráðherrar í þessum tveimur löndum hafa tekið jákvætt í að efla það félag í núverandi krísu. Þá jafnvel með auknu hlutafé en sænski ríkissjóðurinn á í dag 14,82 prósent í SAS og danski 14,24 prósent.

Svíarnir hafa reyndar lengi viljað selja en það vilja Danirnir alls ekki. Þá er bent á hversu mikilvægt fyrirtækið er Dönum og að Kaupmannahafnarflugvöllur sé, þegar allt er tekið saman, stærsti vinnustaður Danmerkur.

Í farþegum talið eru SAS og Norwegian álíka stór félög og gert var ráð fyrir um 30 milljónum farþega hjá hvoru félagi fyrir sig í ár. Þriðja stærsta flugfélag Norðurlanda er svo Finnair sem flutti um 15 milljónir farþega í fyrra. Þar á bæ fer finnska forsætisráðuneytið með 55,81 prósent hlut og ríkisstjórn Finnlands gaf það út í gær að hún myndi styðja flugfélagið í gegnum þessa „óvenjulegu tíma“.

Sem fyrr segir þá er ennþá ekki ljóst hvort og þá hvernig norska ríkið mun svara neyðarkalli forstjóra Norwegian. Á þessari stundu er ekki útilokað að það verði með kaupum á hlutafé og þar með verða SAS, Finnair og Norwegian öll að miklu leyti í eigu frændþjóðanna. Icelandair yrði þá það eina sem áfram yrði í eigu einkaaðila en lífeyrissjóðir fara reyndar með stærstan hlut í félaginu.

Hvort þeir og aðrir eigendur þurfi að leggja félaginu til meira fé á næstunni ræðst kannski af því hversu myndarlega ríkið ætlar að koma að stuðningi við atvinnulífið vegna kreppunnar sem kórónaveiran hefur valdið. Það eru aftur á móti vísbendingar um að stærsti hluthafi Icelandair, bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital, sé ekki aflögufær nú um mundir.


Kæri lesandi, ef þú vilt styðja við útgáfu Túrista þá smellir þú hér

Nýtt efni

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …