Staða íslenskra farþega óljósari en sænskra

Það kemur skýrt fram á vefsíðum ferðaskrifstofa í Svíþjóð, Noregi og Danmörku að farþegar sem eigi bókaðar pakkaferðir næstu fjórar vikur fái þær endurgreiddar ef þeir óska. Hér heima ætti staðan að skýrast síðar í dag.

Frá Alicante á Spáni. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Líkt og hér á landi þá hafa skandinavísk stjórnvöld mælst til þess að þegnar sínir séu ekki að óþörfu á ferðalagi út í heimi næstu fjórar vikur. Forsætisráðherrar Danmerkur og Noregs gáfu út sínar tilskipanir í lok síðustu viku og í þessum löndum er verið að loka flugvöllum.Þar með ómögulegt fyrir Dani og Norðmenn að komast í utanlandsferðir á næstunni og ferðaskrifstofur í löndunum bjóða nú endurgreiðslur á pakkaferðum með brottfarir á næstu fórum vikum.

Hér heima og í Svíþjóð er staðan önnur því engum flugvöllum verður lokað. Í löndunum tveimur ráða yfirvöld fólki þó frá ferðalögum til útlanda. Íslensk stjórnvöld sendu þess háttar viðvörun frá sér í gær og í gærkvöld kom sambærileg tilkynning frá sænska utanríkisráðuneytinu.

Strax í framhaldinu var að finna upplýsingar á heimasíðum sænskra ferðaskrifstofa þar sem fram kom að farþegar sem ættu bókaðar ferðir næstu fjórar vikur gætu breytt ferðatilhögun eða fengið endurgreitt. Á vefsíðum stærstu ferðaskrifstofanna í Svíþjóð, TUI og Ving, kemur þetta skýrt fram og líka hjá Solresor sem er ein þeirra sex norrænu ferðaskrifstofa sem Arion banki á.

Á heimasíðu Heimsferða, sem jafnframt er í eigu Arion, er ennþá ekki að finna svona skýrar leiðbeiningar um stöðu farþega. Sömu sögu er að segja um heimasíður Vita og Úrval-Útsýn en þessar þrjár ferðaskrifstofur eru þær umsvifamestu í sölu á pakkaferðum til útlanda.

Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, bendir á, í svari til Túrista, að tilmæli utanríkisráðuneytisins hafi fyrst komið seinnipartinn gær. Hann segir að í dag verði fundað með Ferðamálastofu um stöðuna og í framhaldinu verði upplýsingar sendar til farþega.

Samkeppniseftirlitið heimilaði í gær samstarf ferðaskrifstofa sem miðar að því að tryggja að viðskiptavinir þeirra komist til síns heima og um leið takmarka það tjón sem hljótast mun af því fordæmalausa ástandi sem nú ríkir eins og segir á vef eftirlitsins. Það má því búast við því að forsvarsfólk ferðaskrifstofanna skoði nú möguleikan á að sameinast um flug, t.d. frá Spáni þar sem flestir farþegar eru núna.

Réttur þeirra sem ferðast á eigin vegum, þ.e. þeir sem hafa keypt flug og hótel í sitthvoru lagi, kann að vera allt annar og minni en ferðamanna í pakkaferð. Þannig heldur Norwegian úti áætlunarflugi hingað frá Alicante, Barcelona, Tenerife og Las Palmas og má gera ráð fyrir að fjöldi þeirra Íslendinga sem er á Spáni núna hafi nýtt sér þær ferðir til að komast út.

Á heimasíðu Norwegian segir að farþegar geti breytt farseðlum en þó gegn þóknun nema keyptir hafi verið dýrari farmiðar sem gefi rétt á breytingum án endurgjalds. Það er líka tekið fram að þeir sem hafa bókað farmiða með Norwegian í gegnum þriðja aðila, t.d. ferðaskrifstofu eða netbókunarsíðu, verði að hafa samband við viðkomandi fyrirtæki.

Viðbót: Samtök sænskra ferðaskrifstofa leggjast gegn því að aðildarfyrirtæki endurgreiði farþegum með þeim hætti sem að ofan er rakið. Sjá hér