Staða íslenskra farþega óljósari en sænskra

Það kemur skýrt fram á vefsíðum ferðaskrifstofa í Svíþjóð, Noregi og Danmörku að farþegar sem eigi bókaðar pakkaferðir næstu fjórar vikur fái þær endurgreiddar ef þeir óska. Hér heima ætti staðan að skýrast síðar í dag.

Frá Alicante á Spáni. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Líkt og hér á landi þá hafa skandi­navísk stjórn­völd mælst til þess að þegnar sínir séu ekki að óþörfu á ferða­lagi út í heimi næstu fjórar vikur. Forsæt­is­ráð­herrar Danmerkur og Noregs gáfu út sínar tilskip­anir í lok síðustu viku og í þessum löndum er verið að loka flugvöllum.Þar með ómögu­legt fyrir Dani og Norð­menn að komast í utan­lands­ferðir á næst­unni og ferða­skrif­stofur í lönd­unum bjóða nú endur­greiðslur á pakka­ferðum með brott­farir á næstu fórum vikum.

Hér heima og í Svíþjóð er staðan önnur því engum flug­völlum verður lokað. Í lönd­unum tveimur ráða yfir­völd fólki þó frá ferða­lögum til útlanda. Íslensk stjórn­völd sendu þess háttar viðvörun frá sér í gær og í gærkvöld kom sambærileg tilkynning frá sænska utan­rík­is­ráðu­neytinu.

Strax í fram­haldinu var að finna upplýs­ingar á heima­síðum sænskra ferða­skrif­stofa þar sem fram kom að farþegar sem ættu bókaðar ferðir næstu fjórar vikur gætu breytt ferða­til­högun eða fengið endur­greitt. Á vefsíðum stærstu ferða­skrif­stof­anna í Svíþjóð, TUI og Ving, kemur þetta skýrt fram og líka hjá Solresor sem er ein þeirra sex norrænu ferða­skrif­stofa sem Arion banki á.

Á heima­síðu Heims­ferða, sem jafn­framt er í eigu Arion, er ennþá ekki að finna svona skýrar leið­bein­ingar um stöðu farþega. Sömu sögu er að segja um heima­síður Vita og Úrval-Útsýn en þessar þrjár ferða­skrif­stofur eru þær umsvifa­mestu í sölu á pakka­ferðum til útlanda.

Tómas J. Gestsson, forstjóri Heims­ferða, bendir á, í svari til Túrista, að tilmæli utan­rík­is­ráðu­neyt­isins hafi fyrst komið seinnipartinn gær. Hann segir að í dag verði fundað með Ferða­mála­stofu um stöðuna og í fram­haldinu verði upplýs­ingar sendar til farþega.

Samkeppnis­eft­ir­litið heim­ilaði í gær samstarf ferða­skrif­stofa sem miðar að því að tryggja að viðskipta­vinir þeirra komist til síns heima og um leið takmarka það tjón sem hljótast mun af því fordæma­lausa ástandi sem nú ríkir eins og segir á vef eftir­litsins. Það má því búast við því að forsvars­fólk ferða­skrif­stof­anna skoði nú mögu­leikan á að sameinast um flug, t.d. frá Spáni þar sem flestir farþegar eru núna.

Réttur þeirra sem ferðast á eigin vegum, þ.e. þeir sem hafa keypt flug og hótel í sitt­hvoru lagi, kann að vera allt annar og minni en ferða­manna í pakka­ferð. Þannig heldur Norwegian úti áætl­un­ar­flugi hingað frá Alicante, Barcelona, Tenerife og Las Palmas og má gera ráð fyrir að fjöldi þeirra Íslend­inga sem er á Spáni núna hafi nýtt sér þær ferðir til að komast út.

Á heima­síðu Norwegian segir að farþegar geti breytt farseðlum en þó gegn þóknun nema keyptir hafi verið dýrari farmiðar sem gefi rétt á breyt­ingum án endur­gjalds. Það er líka tekið fram að þeir sem hafa bókað farmiða með Norwegian í gegnum þriðja aðila, t.d. ferða­skrif­stofu eða netbók­un­ar­síðu, verði að hafa samband við viðkom­andi fyrir­tæki.

Viðbót: Samtök sænskra ferða­skrif­stofa leggjast gegn því að aðild­ar­fyr­ir­tæki endur­greiði farþegum með þeim hætti sem að ofan er rakið. Sjá hér