Staðan geti breyst hratt hjá Icelandair

Í dag leggur SAS niður stóran hluta af starfsemi sinni og á morgun verður öllum þotum AirBaltic lagt og munu þær ekki fljúga með farþega næstu fjórar vikur. Hjá Icelandair er ekki gripið til þess háttar aðgerða en útbreiðsla kórónaveirunnar hefur skiljanlega líka slæm áhrif á félagið.

Mynd: Icelandair

Landamærum nokkurra landa hefur nú þegar verið lokað og stjórnvöld víða leggjast gegn ferðalögum út í heim, þar á meðal þau íslensku. Af þeim sökum hefur eftirspurn eftir flugmiðum dregist alveg saman líkt og fram hefur komið í máli forsvarsfólks erlendra flugfélaga yfir helgina.

Seint í gærkvöld sendi Icelandair frá sér tilkynningu og þar segir að yfirgripsmiklar ferðatakmarkanir, vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar, hafi haft veruleg áhrif á eftirspurn og neikvæð áhrif á bókunarstöðu félagsins. Til marks um það hafi dregið úr flugframboði um þrjátíu prósent síðustu daga og frekari samdráttur líklegur á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi. „[S]taðan getur breyst hratt“, segir í tilkynningunni.

Það ríkir jafnframt óvissa um hvernig flugáætlun Icelandair verður í sumar en eins og staðan er núna gæti flugframboð félagagsins minnkað um fjórðung að minnsta kosti. „Félagið mun þó leggja áherslu á að viðhalda þeim sveigjanleika sem þarf til að geta brugðist hratt við eftir því hvernig eftirspurn þróast.“

Í tilkynningunni segir jafnframt að fjárhagsleg áhrif vegna útbreiðslu kórónaveirunnar á starfsemi Icelandair eru enn óviss. „Lausafjárstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna (301,6 milljónum dala) í árslok 2019 og er á svipuðum stað í dag. Ljóst að útbreiðsla COVID-19 veirunnar muni hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins en unnið er að því að lágmarka þau áhrif, meðal annars með því að draga úr flugframboði og vinna með stéttarfélögum til að lækka launakostnað verulega.“