Stærsti hluthafi Icelandair hefur tapað mest allra á fjárfestingum í flugi

Þegar horft er til hlutafjáreignar bandarískra fagfjárfesta í flugfélögum þá hefur enginn tapað eins miklu á verðbréfahruninu og PAR Capital Management.

Mynd: Berlin Airport

Hlutabréfaverð hefur fallið hratt síðustu vikur í takt við aukna útbreiðslu kórónaveirunnar. Flugfélög hafa farið sérstaklega illa út úr ástandinu og gengi bréfa í alls konar ferðaþjónustufyrirtækjum hefur sömuleiðis fallið. Fólk heldur sig nefnilega heima þessa dagana.

Í ljósi þessa er ekki að undra að eignir vogunarsjóðsins PAR Capital Management, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í flugfélögum og ferðabókunarsíðum, hafi rýrnað mikið að undanförnu. Niðursveiflan er reyndar svo mikil að PAR Capital Management er sá fagfjárfestir vestanhafs sem hefur farið hlutfallslega verst út úr gegnislækkun flugfélaga að undanförnu. Þetta kemur fram í samantekt viðskiptablaðsins Forbes sem birt var fyrir helgi en í dag hefur gengi bréf sjóðsins í stórum bandarískum flugfélögum lækkað ennþá meira.

Meðal annarra eigna PAR Capital er 13,71 prósent hlutur í Icelandair Group sem gerir vogunarsjóðinn að stærsta hluthafanum í stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landins. Bróðurpart bréfanna í Icelandair keypti PAR Capital fyrir 5,6 milljarða króna á genginu 9,03 fyrir ári síðan, nánar tiltekið hálfum mánuði eftir að MAX þoturnar voru kyrrsettar um miðjan mars. Gengi bréfa í Icelandair í dag er rúmlega sextíu prósent lægra en það var fyrir ári síðan.