Stefnt að sölu ferðaskrifstofa Arion í vikunni

Heimsferðir verða eina ferðaskrifstofan í eigu bankans ef viðskiptin ganga eftir.

Travelco Nordic er heiti eignarhaldsfélagsins heldur utan um hlut Arion banka í fimm norrænum ferðaskrifstofum. Nú er vonast til að nýr eigandi taki við rekstrinum. Skjámynd af heimasíðu Travelco Nordic

Það var um mitt síðasta sumar sem Arion banki tók yfir þær sjö norrænu ferðaskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera Travel samsteypu Andra Más Ingólfssonar. Þá var yfirlýst markmið bankans að koma fyrirtækjunum í hendur nýrra eigenda sem fyrst.

Rúmum átta mánuðum síðar hefur eingöngu tekist að selja Terra Nova sem sérhæfir sig aðallega í skipulagningu Íslandsferða. Kaupandinn var Nordic Visitors sem er sömuleiðis umsvifamikill ferðaskipuleggjandi hér á landi.

Nú eru aftur á móti bundnar vonir til þess að sá sem haft hefur forkaupsrétt á fimm ferðaskrifstofum Arion á hinum Norðulöndunum skrifi undir í vikunni. Þetta kom fram í viðtali dönsku ferðasíðunnar Standby við Peder Hornshøj, framkvæmdastjóra Travelco Nordic, fyrir helgi. En Travelco Nordic er heiti félagsins sem heldur utan um hlut Arion banka í ferðaskrifstofunum.

Það hefur þó margt gerst síðan á framkvæmdastjórinn lét þessi orð falla síðastliðinn föstudag. Útbreiðsla kórónaveirunnar hefur nefnilega aukist til muna með þeim afleiðingum að sala á utanlandsferðum hefur víða dregist saman eins og lesa má úr nýjum tilkynningum frá evrópskum flugfélögum.

Hvort að það dragi úr áhuga viðsemjanda Arion banka ætti að koma í ljós innan fárra sólarhringa. En eins og Túristi hefur áður greint frá þá mun það vera evrópski fjárfestingastjóðurinn Triton sem skoðar kaup á norrænu ferðaskrifstofunum fimm.

Ef þessi viðskipti ganga í gegn þá verða Heimsferðir eina ferðaskrifstofan sem Arion á eftir að koma í hendur nýrra eigenda. Heimsferðir hafa um árabil verið umsvifamesta ferðaskrifstofa landsins og sérstaklega í sölu sólarlandaferða.

Fyrir komandi sumar hefur íslenska ferðaskrifstofan gert samning við ítalska flugfélagið Neos um flutning á farþegum sínum á suðrænar slóðir. Að þessu sinni munu þó helstu keppinautarnir, Vita og Úrval-Útsýn, ekki ætla kaupa sæti í leiguflug Heimsferða til Spánar og Grikklands.

Þar með eykst framboð Heimsferða, leigutaka flugvélanna, til áfangastaða eins og Chania á Krít. Eins munu þoturnar sem fljúga til Verona í sumar aðeins vera skipaðar farþegum ferðaskrifstofunnar.