Tekur aftur við sem stjórn­ar­formaður Keahót­el­anna

Liv Bergþórsdóttir er hætt hjá Keahótelunum. Þetta þriðja stærsta hótelfyrirtæki landsins er að meirihluta í eigu tveggja fjárfestingafélaga frá Alaska í Bandaríkjunum. Keahótelin hafa lokað fimm hótelum í Reykjavík vegna ástandsins sem rekja má til útbreiðslu kórónaveirunnar. Óvíst er hvort Hótel Gígur við Mývatn opni í ár.

Páll L. Sigurjónsson forstjóri Keahótelanna og Liv Bergþórsdóttir fyrrum stjórnarformaður. Mynd: Keahótelin

Það var í lok síðasta árs sem Liv Berg­þórs­dóttir tók við sem stjórn­ar­formaður Keahót­el­anna og leysti hún þá af hólmi hinn banda­ríska John­athan Rubini. Sá er reglu­lega sagður ríkasti íbúi Alaska fylkis en hann  keypti meiri­hluta í Keahót­el­unum árið 2017 ásamt fjár­fest­inga­fé­laginu Pt Capital. Það félag er einnig með aðsetur í Alaska og fara þessir tveir banda­rísku fjár­festar líka fyrir stórum hlut í síma­fyr­ir­tækinu Nova. Liv var ein af stofn­endum þess og forstjóri til langs tíma.

Nú hefur Liv aftur á móti ráðið sig sem forstjóra ORF Líftækni og byrjar þar um næstu mánaðamót líkt og fram kom í fréttum í gær. Aðspurður um áhrif þess á stjórn Keahót­el­anna þá segir Páll L. Sigur­jónsson, forstjóri hótel­anna, að Liv sé hætt störfum og Rubini tekinn við sem stjórn­ar­formaður á ný. En auk þess að vera full­trúi banda­rísku fjár­fest­anna í stjórn Keahót­el­anna þá hefur Liv einnig haldið utan um aðrar fjár­fest­ingar Rubini hér á landi samkvæmt því sem fram kom í tilkynn­ingu í desember.

Vegna ástandsins sem nú ríkir vegna útbreiðslu kóróna­veirunnar og þeirra ferða­banna sem sett hafa verið þá hafa Keahót­elin lokað tíma­bundið fimm hótelum í Reykjavík en tvö af sögu­fræg­ustu hótelum landsins, Hótel Borg og Hótel Kea, eru áfram opin. Páll bæti við að ekki sé útlit fyrir að Hótel Gígur við Mývatn verði opið í ár en líkt og áður hefur komið fram þá heyrir Hótel Norð­ur­land ekki lengur undir Keahót­elin.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virki­lega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómet­an­legt ef þú myndir leggja útgáf­unni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýs­ingar.