Tekur aftur við sem stjórnarformaður Keahótelanna

Liv Bergþórsdóttir er hætt hjá Keahótelunum. Þetta þriðja stærsta hótelfyrirtæki landsins er að meirihluta í eigu tveggja fjárfestingafélaga frá Alaska í Bandaríkjunum. Keahótelin hafa lokað fimm hótelum í Reykjavík vegna ástandsins sem rekja má til útbreiðslu kórónaveirunnar. Óvíst er hvort Hótel Gígur við Mývatn opni í ár.

Páll L. Sigurjónsson forstjóri Keahótelanna og Liv Bergþórsdóttir fyrrum stjórnarformaður. Mynd: Keahótelin

Það var í lok síðasta árs sem Liv Bergþórsdóttir tók við sem stjórnarformaður Keahótelanna og leysti hún þá af hólmi hinn bandaríska Johnathan Rubini. Sá er reglulega sagður ríkasti íbúi Alaska fylkis en hann  keypti meirihluta í Keahótelunum árið 2017 ásamt fjárfestingafélaginu Pt Capital. Það félag er einnig með aðsetur í Alaska og fara þessir tveir bandarísku fjárfestar líka fyrir stórum hlut í símafyrirtækinu Nova. Liv var ein af stofnendum þess og forstjóri til langs tíma.

Nú hefur Liv aftur á móti ráðið sig sem forstjóra ORF Líftækni og byrjar þar um næstu mánaðamót líkt og fram kom í fréttum í gær. Aðspurður um áhrif þess á stjórn Keahótelanna þá segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri hótelanna, að Liv sé hætt störfum og Rubini tekinn við sem stjórnarformaður á ný. En auk þess að vera fulltrúi bandarísku fjárfestanna í stjórn Keahótelanna þá hefur Liv einnig haldið utan um aðrar fjárfestingar Rubini hér á landi samkvæmt því sem fram kom í tilkynningu í desember.

Vegna ástandsins sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar og þeirra ferðabanna sem sett hafa verið þá hafa Keahótelin lokað tímabundið fimm hótelum í Reykjavík en tvö af sögufrægustu hótelum landsins, Hótel Borg og Hótel Kea, eru áfram opin. Páll bæti við að ekki sé útlit fyrir að Hótel Gígur við Mývatn verði opið í ár en líkt og áður hefur komið fram þá heyrir Hótel Norðurland ekki lengur undir Keahótelin.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.