Telur að bókanir á flugmiðum taki fljótlega við sér

Forstjóri Ryanair gerir ráð fyrir að almenningur þreytist senn á umræðu um nýju kórónaveiruna og fari aftur að bóka farmiða.

Forstjórar nokkurra af stærstu flugfélögum Evrópu í morgun. Michael O´Leary lengst til vinstri og Benjamin Smith annar frá hægri. Mynd: Túristi

Flugfélög víða um heim boða nú niðurskurð á sætaframboði og jafnvel uppsagnir vegna neikvæðra áhrifa kórónaveirunnar Covid-19 á ferðagleði fólks. Nú dregur ekki aðeins úr flugi til og frá Kína og nærliggjandi löndum heldur líka innan Evrópu og sérstaklega til Ítalíu.

Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, telur þó stutt í að ástandið verði eðlilegt á ný. Á fundi með blaðamönnum í Brussel í morgun sagði O´Leary reikna með samdrætti í fjölda farþega í mars og apríl og jafnvel maí. Sumarið yrði þó líklega á pari við það síðasta. „Heilbrigð skynsemi nær yfirtökum á endanum og fólk verður þreytt á umræðunni um kórónavírusinn á næstu tveimur til þremur vikum. Þá fer það að bóka flugmiða á ný,” fullyrti O´Leary.

Í dag eru forstjórar nokkurra af stærstu flugfélagum Evrópu komnir saman í Brussel á árlegum fundi hagsmunastamtakanna Airlines4Europe. Þar eru áhrif kórónaveirunnar á fluggeirann skiljanlega ofarlega á baugi og blaðamenn leita ítrekað eftir sýn forstjórana á krísunni sem fluggeirinn er í núna.

Þannig var Benjamin Smith, forstjóri AirFrance/KLM, spurður hvort hann  gerði ráð fyrir að núverandi staða kallaði á sameiningar flugfélaga í Evrópu. Smith taldi það óumflýjanlegt enda væru félögin misvel undir vandræðin búin. „Veik flugflugfélög munu eiga erfitt með að ráða úr stöðu dagsins,“ sagði Smith.