TF-KEX í flota Icelandair

Ein af flugvélunum sem fylla átti skarð Boeing 737 MAX þotanna hjá Icelandair er byrjuð að fljúga með farþega félagsins.

Mynd: Icelandair

Þegar ljóst var að Boeing MAX þotur færu ekki í loftið fyrir komandi sumarvertíð þá leigðu stjórnendur Icelandair þrjár eldri Boeing 737 flugvélar til að fylla skarðið. Nú hafa aðstæður aftur á móti breyst til hins verra og uppfærð sumaráætlun Icelandair gerir þannig ráð fyrir fjórðungs samdrætti.

Af þeim sökum verða leiguvélarnar tvær í stað þriggja. Og sú fyrri, TF-KEX, er þegar komin til landsins og fór hún jómfrúarferð sína með farþega Icelandair í lok síðustu viku samkvæmt frétt Ch-Aviation. Þotan var einnig nýtt í áætlunarflug til Heathrow flugvallar á þriðjudag.

TF-KEX er 16 ára gömul farþegaþota sem er í eigu flugvélaleigu í Slóvakíu en þar er í landi eru hún skráð sem OM-KEX. Síðustu mánuði hefur flugvélin verið leiguverkefnum fyrir félög eins og Transavia og Czech Airlines. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er gert ráð fyrir að seinni Boeing 737-800 leiguvélin verði komin í rekstur hjá félaginu í maí.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.