Þegar Flybe flaug til Íslands

Umsvifamesta innanlandsflugfélag Evrópu er gjaldþrota. Félagið var eitt þeirra sem spreytti sig á Íslandsflugi eftir að ferðamannastraumurinn jókst í stórum skrefum.

flybe 860
Mynd: Flybe

Þrátt fyrir nýja fjársterka eigendur og vilyrði frá breska ríkinu um aðstoð þá tókst ekki að halda flugfélaginu Flybe á lofti. Stjórnendur þess segja útbreiðslu kórónaveirunnar hafa haft slæm áhrif á reksturinn en hann hefur reyndar verið í járnum lengi en Flybe var mjög umsvifamikið í innanlandsflugi í Bretlandi.

Flugvélar félagsins flugu þó líka til annarra landa og til að mynda til Keflavíkurflugvallar á tímabili. Sú útgerð var þó ekki langlíf. Jómfrúarferðin hingað frá Birmingham var í júní árið 2014 og sú síðasta í tæpum níu mánuðum síðar.

Reyndar lofaði Íslandsflug FlyBe góðu því upphaflega stóð aðeins til að fljúga hingað yfir sumarmánuðina en vegna þess hve eftirspurnin var mikil þá var ákveðið að halda ferðunum gangandi veturinn 2014-2015. Engu að síður reyndist ekki vera grundvöllur fyrir þetta áætlunarflug þó aðeins hafi verið í boði 88 sæti í hverri ferð. Flugfloti Flybe samanstóð nefnilega af minni gerðum flugvéla.

Þrátt fyrir reynslu Flybe þá ákváðu stjórnendur Icelandair að setja stefnuna á Birmingham og þangað flaug félagið reglulega á árunum 2015 til 2018.