Þýskur auðmaður orðinn stærsti hluthafi Lufthansa

Gengið hlutabréfa í stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu hefur fallið hratt síðustu vikur og nú hefur þýskur milljarðamæringur eignast tíu prósent hlut í félaginu. Til samanburðar er stærsti einstaklingur í hlutahafahópi Icelandair með 2,15 prósent.

Heinz Hermann Thiele, sjötti ríkasti Þjóðverjinn er nú orðinn stærsti hluthafinn í Lufthansa. Mynd: Knorr-Bromse

Lufthansa Group rekur ekki aðeins samnefnt þýskt flugfélag heldur líka Eurowings, SWISS, Austrian, Brussels airlines og nokkur minni félög. Engin önnur flugfélagasamsteypa í Evrópu er eins umsvifamikil.  Gengi hlutabréfa í Lufthansa Group, eins og í öðrum flugfélögum, hefur þó fallið hratt síðustu vikur í takt við að flugsamgöngur hafa nærri því lagst af tímabundið.

Þýski milljarðamæringurinn Heinz Hermann Thiele sér aftur á móti tækifæri í þessari verðlækkun og nú í mars hefur hann í nokkrum skrefum keypt samtals tíu prósent hlut í Lufthansa samkvæmt frétt Checkin.dk. Þar með er Thiele orðin stærsti hluthafinn í þýsku samsteypunni en hann hefur efnast gríðarlega í gegnum fyrirtæki sitt Knorr-Bremse sem framleiðir meðal annars bremsubúnað fyrir járnbrautalestar. Thiele er lýst sem mjög virkum fjárfesti sem hiki ekki við að láta skoðanir sínar í ljós.

Virði þessa tíu prósent hlutar Thiele í Lufthansa er í dag um 73 milljarðar króna en til samanburðar þá er heildarvirði Icelandair Group rétt um tuttugu milljarðar í dag. Í hlutahafahópi íslenska félagsins eru stærstu eigendurnir aftur á móti mismunandi sjóðir. Sá einstaklingur sem á flest bréf í Icelandair samteypunni er Högni Pétur Sigurðsson. Í eigin nafni og í gegnum eignarhaldsfélagið Naut­ica fer hann með 2,15 prósent hlut í félaginu.

Þess ber að geta að persónulegur hlutur Högna Péturs er ekki merktur honum á lista Icelandair Group yfir tuttugu stærstu hlutahafa félagsins. Í staðinn stendur aðeins „Einstaklingur“ við eign upp á 70 milljónir hluta en áður hefur komið fram að þar fari fyrrnefndur fjárfestir. Þessi hlutur hefur stækkað um fjórðung frá því í byrjun vetrar.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.