Uppsagnir hjá stórum ferðaþjónustufyrirtækjum

Bæði Icelandair hótelin og Arctic Adventures sögðu upp fjölda manns fyrir lok febrúar mánaðar.

Erfiðar ytri aðstæður og möguleg fækkun ferðamanna eru helstu ástæður fyrir uppsögnum hjá tveimur af umsvifamestu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Mynd: Curren Podlesny / Unsplash

Þrjátíu og þremur starfsmönnum Icelandair hótelanna var sagt upp störfum nú um mánaðamótin. Heildarfjöldi uppsagna hjá fyrirtækinu nam þar með fjörutíu manns í febrúar og var Vinnumálastofnun tilkynnt um þessar aðgerðir að sögn Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair hótelanna.

„Ytri aðstæður eru ferðaþjónustu mjög erfiðar um þessar mundir og bókunarstaða hótela og veitingastaða ekki góð fyrir komandi vikur og mánuði. Við þurfum því að bregðast við lækkun tekna með því að hagræða á sem flestum sviðum í okkar starfsemi. Auðvitað er það miður að þurfa að grípa til slíkra aðgerða, en við vonumst til þess að þeirri óvissu sem nú ríkir í ferðaþjónustu bæði hér á landi og á alþjóðavísu létti sem fyrst, og að horfur batni á vormánuðum,“ segir Magnea Þórey í svari til Túrista.

Hún bætir því við að í heildina séu 640 heilsárs stöðugildi hjá Icelandair hótelunum. Fyrirtækið rekur níu hótel undir eigin nafni auk þriggja Hilton hótela.

Hjá Arctic Adventures, einu umsvifamesta fyrirtæki landsins í ferðatengdri afþreyingu, var níu starfsmönnum, bæði á Íslandi og Vilnius í Litháen, sagt upp í lok febrúar. Styrmir Þór Bragason, forstjóri fyrirtæksins, segir að ráðist hafi verið í þessa aðgerð í kjölfar þess að hinn nýi kórónavírus festi rætur í Evrópu. „Einnig munum við samhliða þessum uppsögnum minnka alfarið kaup af verktökum. Við höfum einnig endurskipulagt framboð okkar næstu mánuði til að mæta væntanlegum samdrætti í fjölda ferðamanna til Íslands,“ segir Styrmir Þór.