Veruleg fækkun ferðamanna í kortunum

Það liggur fyrir að nýja kórónaveiran hefur gert út um fyrri spár um að fjöldi ferðamanna hér á landi standi í stað í ár.

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Iceland.is

Það komu rétt tæplega tvær milljónir ferðamanna til Íslands í fyrra eða rúmlega þrjú hundruð þúsund færri en metárið 2018. Og þrátt fyrir áframhaldandi kyrrsetningu Boeing MAX þotanna og aðeins minna sætisframboð þá gaf forstjóri Isavia það út um áramót að gera mætti ráð fyrir óbreyttum fjölda ferðamanna í ár.

Vegna útbreiðslu nýju kórónaveirunnar er ljóst að sú spá er ekki lengur raunhæf. Óvissan sem nú ríkir gerir það í raun varla mögulegt að leggja almennilegt mat mögulegan fjölda ferðamanna hér á landi í ár. En ef horft er til nýrrar greiningar á vegum IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga, þá er þar að finna vísbendingar um þá niðursveiflu sem er í kortunum eins og staðan er í dag.

Í greiningu IATA er fækkun flugfarþega mismikil eftir löndum og heimsálfum, allt eftir því hversu útbreidd kórónaveiran er á viðkomandi svæði. Þegar þessar niðurstöður IATA eru heimfærðar upp á skiptingu ferðamanna á Íslandi efir þjóðernum þá er niðurstaðan sú að fjöldi ferðamanna fer að minnsta kosti niður í 1,8 milljón í ár. Það byggir á því að áhrif veirunnar verði skammvinn.

Ef ástandið varir í lengri tíma þá mætti gera ráð fyrir um 1,6 milljón erlendra ferðamanna. Það yrði um fimmtungi minna en í fyrra og nokkru undir því sem var árið 2016. Það má þó setja alls kyns fyrirvara við svona spár og forsendur gætu breyst til hins betra eða verra á næstu sólarhringum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem staðið er frammi fyrir mögulegum samdrætti í íslenskra ferðaþjónustu. Á sama tíma í fyrra var gjaldþrot WOW air yfirvofandi og þá var ljóst að fækkunin yrði veruleg eins og kom á daginn. Í því tilfelli var þó einfaldara að spá í spilin enda ekki um heimsfaraldur að ræða.

Í ljósi þess hve íslensk ferðaþjónusta vegur þungt í þjóðarbúinu þá myndi fimmtungi færri túristar í ár hafa töluverð áhrif. Þá hefði hópur ferðamanna líka dregist saman um 700 þúsund á tveimur árum. Það er þó nokkru minni en sú niðursveifla sem Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, teiknaði upp í úttekt Viðskiptablaðsins á sífellt veikari stöðu Icelandair og WOW air fyrir tveimur árum síðan. Þar velti hann því upp hvað myndi gerast ef fjöldi ferðamanna myndi fara úr 2,2 milljónum og niður í rúma milljón.

„Það verður að hafa það í huga að þó að ferðamönnum myndi fækka um helming og helmingssamdráttur yrði í flugi þá erum við enn þá með fleiri ferðamenn og meira flug en var árið 2014. Þá spyr maður sig, höfðum við það ekki bara ágætt 2014 og fannst okkur ekki nóg um 2014 þó að þetta yrði að sjálfsögðu mikið högg,“ sagði Konráð í Viðskiptablaðinu í mars 2018.