Viðræðum um sölu á ferðaskrifstofunum ekki hætt

Ekki tókst að klára söluferli á fimm af þeim sex ferðaskrifstofum sem Arion rekur. Skýringin liggur í óvissunni sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Stjórnarformaður fyrirtækjanna segir ótímabært að ræða hvort bankinn þurfi að setja aukið fé í reksturinn.

strond nikos zacharoulis
Mynd: Nicolas J Leclercqlas J Leclercq / Unsplash

Síðastliðið sumar tók Arion banki yfir þær sjö ferðaskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera Travel samsteypu Andra Más Ingólfssonar. Um er að ræða tvær íslenskar skrifstofur, Terra Nova og Heimsferðir, og svo fimm aðrar á hinum Norðurlöndunum. Í vetur keypti Nordic Visitor þá fyrstnefndu og bundnar voru vonir við að sala á þessum fimm norrænu myndi klárast í síðustu viku líkt og Túristi greindi frá.

Það gekk ekki eftir að sögn Jóns Karls Ólafssonar, stjórnarformanns ferðaskrifstofa Arion banka. Hann segir að engum viðræðum hafi þó verið hætt en aðstæður séu krefjandi. „Staðan sem komin er upp vegna COVID-19 er algjörlega fordæmalaus og menn eru aðeins að reyna að fóta sig varðandi þróun næstu vikna. Ég held að allir ferðaþjónustuaðilar glími við sömu óvissuna eins og staðan er núna.“

Icelandair hefur tilkynnt um niðurfellingu á brottförum næstu tvo mánuði líkt og mörg önnur flugfélög hafa gert. Aðspurður um mögulegan niðurskurð hjá ferðaskrifstofunum þá Jón Karl segir það augljóst að skoða verði framboðsmál allra ferðaþjónustuaðila ef ekki rofar til á næstu vikum. „Bókanir fyrir vorið hafa verið mjög góðar þannig að framleiðsla næstu vikna verður ekki mikið breytt. Óvissan er hins vegar mikil og breytist með hverjum degi. Það er alveg ótímabært að fara að draga upp dekkstu sviðsmyndirnar. Þær myndu væntanlega kalla á stöðu þar sem aðilar á markaði yrðu einfaldlega að vinna saman til að takmarka skaða.“

Sem fyrr segir þá rekur Arion nú sex ferðaskrifstofur og þar á meðal Heimsferðir. Sú ferðaskrifstofa hefur verið sú umsvifamesta hér á landi í sölu sólarlandaferða og fyrir komandi sumar er í gildi samningur við ítalskt flugfélag um reglulegt leiguflug fyrir Heimsferðir frá Keflavíkurflugvelli til Spánar, Grikklands og Ítalíu. En í ljósi núverandi stöðu á markaðnum og mögulegs samdráttar er þá ekki fyrirséð að Arion þurfi að setja meira fé í rekstur Heimsferða ef ástandið batnar ekki á næstu vikum? „Ef ekki rofar til á næstu vikum verður komin ný staða og það er ekki tímabært að ræða hvernig verður hægt að bregðast við,“ segir Jón Karl og ítrekar það óvissuástand sem nú ríkir.