Vonast til að norsk stjórnvöld finni lausn á lausafjárkrísu Norwegian

Forstjóri Norwegian líkir ástandinu sem nú ríkir í heiminum við stríð en þó án skotvopna og sprenginga. Hann dregur ekki dul á að flugfélagið þurfi á fjárhags aðstoð að halda.

Mynd: Norwegian

Norskir ráðamenn kynntu í hádeginu í dag tillögur sínar um að fella niður farþega- og flugvallagjöld tímabundið til aðstoðar við flugrekstur í landinu. Jacob Schram, forstjóri Norwegian, telur að þessar aðgerðir gangi of stutt en hann vildi þó ekki segja þær vonbrigði.

Þetta kom fram á stuttum blaðamannafundi sem hann rétt í þessu. Þar benti hann á mikilvægi Norwegian fyrir norsk samfélag og sagðist binda vonir við að norska ríkisstjórnin myndi finna leiðir til að aðstoða Norwegian í gegnum þá lausafjárkrísu sem félagið er í núna. Lagði Schram áherslu á að lausn yrði að finnast á næstu vikum og hann væri vongóður um að hún myndi finnast. Í gær sagði Norwegian upp helmingi starfsmanna sinna og skar niður umtalsverðan hluta af flugáætlun sinni.

Forstjórinn vildi ekki svara spurningum um hversu slæm þessi lausafjárkrísa væri eða hversu lengi félagið gæti verið án tekna. Hann undirstrikaði þó að væntanlegar bætur frá Boeing, vegna MAX þotanna, myndu ekki einar og sér duga félaginu til að fleyta því í gegnum núverandi stöðu.

Jacob Schram tók við sem forstjóri Norwegian í nóvember í fyrra og leysti þá af hólmi Bjørn Kjos, einn af stofnendum félagsins. Schram hefur ekki á sjö dagana sæla í starfi enda hefur félagið barist í bökkum og hlutabréfaverðið verið í frjálsu falli síðustu vikur. Af þeim sökum hafa verið vangaveltur í skandinavískum fjölmiðlum hvort ekki væri réttast að sameina Norwegian og SAS. Á blaðamannafundinum var forstjórinn spurður hvort hann teldi það raunhæft en hann svaraði því til að þessi valkostur hefði ekki verið ræddur.

Norwegian hefur nú í vetur flogið frá Keflavíkurflugvelli til nokkurra spænskra áfangastaða og til Óslóar. Núverandi sumaráætlun gerir ráð fyrir reglulegum ferðum héðan til Alicante, Barcelona og norsku höfuðborgarinnar.