WOW áhrifin áfram mikil

Farþegahópurinn á Keflavíkurflugvelli skrapp saman um 23 prósent í febrúar. Á sama tíma í fyrra stóð WOW air undir fjórðungi áætlunarferða frá flugvellinum.

Það voru 393 þúsund farþegar sem áttu leið um Leifsstöð í síðasta mánuði. Mynd: Isavia

Þrátt fyrir að flugáætlun WOW air hafi verið skorin niður í febrúar í fyrra stóð félagið engu að síður undir fjórðu hverri brottför frá Keflavíkurflugvelli í þeim mánuði. Nú eru fjólubláar þotur félagsins ekki lengur við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjöldi flugferða þaðan hefur dregist saman um sem nemur umsvifum WOW air líkt og nýjasta talning Túrista leiddi í ljós.

Í farþegum talið þá er fækkunin líka um fjórðungur eða akkúrat 22,6 prósent samkvæmt tölum Isavia. Langmestur er samdrátturinn í fjölda tengifarþega eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Sá hópur hefur skroppið saman um rúman helming frá því í fyrra og ennþá meira þegar horft er til febrúar 2018. Fjöldi komu- og brottfararfarþega minnkar minna.