1400 starfsmönnum sænskra flugfélaga sagt upp í dag

Stærsta innanlandsflugfélag Svíþjóðar er komið í greiðslustöðvun og allir flugliðar Norwegian í Svíþjóð fá uppsagnarbréf.

Nú er óvíst með framtíð BRA en félagið er mjög umsvifamikið í innanlandsflugi í Svíþjóð. Mynd: BRA

Auk SAS og Norwegian þár er sænska flugfélagið BRA mjög umsvifamikið í innanlandsflugi þar í landi. Og öfugt við stóru félögin þá flýgur félagið til margra minni bæja á meðan stóru keppinautarnir einbeita sér aðallega að flugi til fjölmennustu svæðanna. Rekstur BRA hefur aftur á móti verið í járnum síðustu ár og í síðustu viku tilkynnti félagið að starfsemin yrði að mestu stöðvuð vegna áhrifa krónaveirunnar.

Í morgun gengu stjórnendur félagsins svo skrefinu lengri og sóttu um greiðslustöðvun svo hægt væri að endurskipuleggja reksturinn. Öll sala flugmiða með BRA hefur verið stöðvuð.

Sænska ríkið hét stuðningi við flugreksturinn í landinu fyrir þremur vikum síðar í formi lánaábyrgða. Þau úrræði hefðu þó ólíklega gagnast BRA að sögn framkvæmdastjórans Geir Stormorken. Í viðtali við Dagens Industri segir hann að beinn fjárhagslegur stuðningur við félagið auk þess að losna tímabundið við allan launakostnað hefði komið félaginu betur. Stormorken segir ekki hægt að reikna með að eigandi félagsins, Normaðurinn Per G Braathen, setji aukið fé í félagið núna þegar óvissan er algjör.

Það voru ekki aðeins um sex hundruð starfsmenn BRA sem fengu uppsagnarbréf í dag því Norwegian í Svíþjóð sagði upp öllum áhöfnum sínum þar í landi í dag, samtals 800 manns.