15 verkefni í viðbót

Stærsti hluti þessarar sérstöku úthlutunar úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða fer til Norðurlands eystra.

Akureyrarbær fékk rúmlega tíund af þeirri upphæð sem úthlutað var. Mynd: Markaðsstofa Akureyrar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur ráðstafað 200 milljón króna viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Í frétt á vef stjórnarráðsins segir fjárveitingin sé hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins.

Alls hljóta fimmtán verkefni, til viðbótar við þau 33 verkefni sem tilkynnt var að fengju styrk úr sjóðnum í mars sl., brautargengi. Um er að ræða verkefni víðsvegar um landið sem sóttu um í sjóðinn við síðustu úthlutun en náðu ekki fram að ganga. Stærstur hluti úthlutunarinnar, eða 43 prósent, rennur til verkefna á Norðurlandi eystra. Þá renna 28% til verkefna á Suðurlandi.

Á vef atvinnuvegaráðuneytisins má sjá hvaða verkefni fengu úthlutað að þessu sinni.