Aðeins hið opinbera getur endurræst flugfélag

Það dugar ekki að lofa flugfélögum eins og SAS ríkisábyrgðum á lánum heldur verði líka að auka hlutafé. Og það hafi einkafjárfestar varla bolmagn í að mati stjórnarmanns í flugfélaginu sem kallar eftir auknu fé frá stærstu eigendunum, sænska og danska ríkinu.

Þota SAS við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi. Mynd: Alexandra Maritz / Swedavia

Bæði stjórnendur Icelandair og SAS gripu til þess í gær að segja upp um helmingi starfsmanna í ljósi þess að nú liggja flugsamgöngur nærri algjörlega niðri og tekjurnar nánast engar. Staða SAS eins og fleiri flugfélaga er því grafalvarleg þrátt fyrir að ríkisstjórnir Danmerkur og Svíþjóðar hafi strax í mars gefið út loforð um að ábyrgjast lán til félagsins sem upp á rúmlega fjörutíu milljarða íslenskra króna. Til viðbótar ætlar norska ríkið líka að ábyrgjast lán til félagsins.

Þessi ríkislán duga þó ekki ein og sér að að mati Jacob Wallenberg sem situr í stjórn SAS fyrir hönd Wallenberg ættarinnar en hún er stærsti fjárfestirinn í flugfélaginu á eftir sænska og danska ríkinu. Wallenberg skorar því á ráðamenn í Svíþjóð og Danmörku að setja aukið hlutafé í flugreksturinn og segir að aðrir hluthafar muni líka reyna að leggja sitt að mörkum.

Hann fullyrðir þó að við aðstæður eins og ríkjandi eru í dag þá hafi einkafjárfestar ekki burði í að endurræsa flugfélög. Það verkefni sé aðeins á færi hins opinbera. Vísar Wallenberg jafnframt til þess að flugfélög eins og SAS séu mikilvæg fyrir samgöngur og þar með útflutningsgreinar landanna.

Í tengslum við uppsagnir gærdagsins kom það fram í viðtölum við Rickard Gustafson, forstjóra SAS, að ennþá hefðu fyrrnefndar lánaábyrgðir ríkissjóða ekki verið gefnar út og það væri þörf á því að bæta úr því sem fyrst. Þess má geta að forstjórinn mat lausafjárstöðu SAS sterka í upphafi kórónaverukrísunnar en síðan þá hefur staðan skiljanlega versnað til muna.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.