Afpanta MAX þotur

Nú styttist biðlistinn eftir Boeing MAX gallagripunum en Icelandair á ennþá eftir að fá afhentar tíu þotur af þessari gerð.

Ein af MAX þotum Icelandair. Mynd: Berlin Tegel

Tekjur flugfélaga munu dragast saman um rúman helming í ár gangi spár alþjóðasamtaka flugfélaga eftir. Þörfin fyrir fleiri nýjar flugvélar hefur þar með minnkað og til marks um það þá var samningum um kaup á samtals 150 MAX þotum sagt upp í mars samkvæmt frétt CNBC.

Þar af losuðu stjórnendur flugvélaleigunnar Avolon sig undan kaupum á sjötíu og fimm þess háttar flugvélum og brasilíska flugfélagið Gol hætti við kaup á þrjátíu og fjórum. Til viðbótar sögðu aðrir flugrekendur upp kaupsamningum á fjörutíu og einni MAX þotu.

Ennþá hefur Boeing ekki tekist að afhenda eina gallalausa MAX þotu og kann sú staðreynd að skýra minnkandi áhuga flugrekenda á að taka þær í gagnið. Flugfélög hafa líka búið sig undir að ófáir farþegar muni ekki vilja ferðast með þessum þotum þegar þær fá flugheimild á ný.

Icelandair hefur fengið sex MAX þotur afhentar og þrjár til viðbótar eru tilbúnar og merktar félaginu við verksmiðjur Boeing. Samið hafði verið um sölu og endurleigu á þeim þremur en vegna seinagangs við afhendingu, sem rekja má til kyrrsetningar flugvélanna, þá runnu tveir þessara samninga út. Þær tvær þotur eru þá einu MAX vélarnar í eigu Icelandair en félagið leigir hinar sjö.

Auk þess á Icelandair inni sjö MAX þotur sem ennþá hafa ekki verið framleiddar. Aðspurð um hvort flugfélagið eigi kost á því að komast undan þeim samning þá segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að ekki sé hægt að fara út í efnisatriði kaupsamningsins þar sem hann sé trúnaðarmál.

Þess má geta að Icelandair gerði upphaflega samning um kaup á tuttugu og fjórum MAX þotum. Rrétturinn á átta þeirra var þó ekki virkjaður á sínum tíma.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.