Áfram langstærsti hluthafinn í Icelandair þrátt fyrir sölu á hlutabréfum

Tveir af stærstu hluthöfum Icelandair hafa minnkað hlut sinn í fyrirtækinu síðustu daga.

Mynd: Berlin Airport

Allt frá því í apríl í fyrra hefur PAR Capital verið stærsti hluthafinn í Icelandair samsteypunni. Í byrjun síðustu viku átti bandaríski vogunarsjóðurinn rúmlega 745 milljónir hluta í þessu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins eða 13,7 prósent af hlutafénu. Starfsmenn PAR Capital hafa þó nýtt síðustu daga í að selja bréf í flugfélaginu því samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa í Icelandair Group er bandaríski sjóðurinn skráður fyrir 734 milljónum hluta.

Samtals hefur sjóðurinn því losaði sig við rétt um 11 milljónir hluta. Gengi Icelandair hefur verið í kringum þrjá síðustu daga og virði þessara viðskipta hefur verið því á bilinu 36 til 38 milljónir króna. Til samanburðar keypti PAR Capital 11,5 prósent í Icelandair fyrir ári síðan á genginu 9,03 og voru þau viðskipti upp á 5,6 milljarða króna. Félagið bætti svo við hlutabréfum á hærra gengi síðastliðið sumar. Hlutdeild PAR Capital í Icelandair hefur því minnkað sáralítið eftir söluna í síðustu viku.

PAR Capital er ekki eini af stærstu hluthöfum Icelandair sem selt hefur hlutabréf í félaginu síðustu daga. Það hefur líka Högni Pétur Sigurðsson, eigandi Hard Rock Café, gert því fjöldi bréfa í hans eigu hefur dregist saman um þrjár milljónir milli vikna. Það hefur lítil áhrif á heildareign hans í Icelandair sem nemur í dag 2,13 prósentum.

Líkt og Túristi sagði frá um daginn þá hefur PAR Capital farið sérstaklega illa út úr niðursveiflunni á hlutabréfamörkuðum þar sem sjóðurinn fjárfestir nær eingöngu í flugfélögum og ferðabókunarsíðum. Af þeim sökum verður áhugavert að sjá hvort félagið hafi bolmagn og áhuga á að taka þátt í þeirri hlutafjáraukningu sem framundan er hjá Icelandair.