Aftur selur stærsti hluthafinn í Icelandair samsteypunni

Bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Captial hefur selt nærri sautján milljón hluti í flugfélaginu síðustu daga.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um tvo þriðju í ár og er nú í sögulegu lágmarki eða í kringum 2,5 krónur á hvern hlut. Gengið var aftur á móti 9,03 þegar PAR Capital, vogunarsjóður frá Boston í Bandaríkjunum, keypti 11,5 prósent hlut í félaginu fyrir tæpa sex milljarða króna fyrir ári síðan.

Síðastliðið sumar bætti sjóðurinn við hlut sinn í flugfélaginu á ennþá hærra gengi og hefur síðan þá átt 13,7 prósent í Icelandair samsteypunni og verið stærsti hluthafinn.

Í þarsíðustu viku losuðu starfsmenn PAR Capital sig aftur á móti við lítinn hlut í þessu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og fór hlutdeildin þá niður í 13,5 prósent. Og aftur hafa Bandaríkjamennirnir selt hlutabréf í Icelandair því núna er hlutur þeirra  kominn niður í 13,2 prósent samkvæmt nýjasta hluthafalista Icelandair. Samtals hafa þeir selt um 17 milljón hluti og virði viðskiptanna þá í kringum fjörutíu milljónir miðað við gengi bréfa í Icelandair síðustu daga.

Stjórnendur Icelandair vinna nú að undirbúningi hlutafjárútboðs til að styrkja félagið vegna þeirra áfalla sem reksturinn hefur orðið fyrir vegna heimsfaraldursins sem nú gengur yfir.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.