Air Canada hættir við sumarferðir til Íslands

Ekkert verður af Íslandsflugi kanadíska flugfélagsins í sumar.

aircanada
Mynd: Air Canada

Það var sumarið 2017 sem Air Canada hóf að fljúga hingað til lands frá bæði Montreal og Toronto og var ætlunin að halda þessari útgerð áfram nú í sumar. Vegna heimsfaraldursins sem nú gengur yfir hafa stjórnendur félagsins aftur á móti skorið niður sumaráætlunina umtalsvert og lentu áætlunarferðirnar til Íslands undir niðurskurðarhnífnum.

Kanadíska flugfélagið ætlar ekki heldur að senda þotur sínar til Feneyja, Prag, Zagreb eða Búdapest í sumar svo nokkrar evrópskar borgir séu nefndar.

Þess má geta að þegar Air Canada hóf flug til Íslands þá fór félagið í samkeppni við bæði Icelandair og WOW air í flugi frá þessum tveimur fjölmennustu borgum Kanada. WOW flaug til þeirra beggja allt árið um kring á meðan Icelandair hefur látið sumarferðir til Montreal duga en haldið úti heilsársflugi til Toronto.

Með þessari breytingu bætist Air Canada í hóp með bandarísku flugfélögunum American Airliens og United Airlines sem einnig hafa hætt við flug hingað í sumar.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.