Dótturfélög Norwegian í Svíþjóð og Danmörku í þrot

Um 4700 flugliðar norska lággjaldaflugfélagsins missa vinnuna.

Mynd: Norwegian

Fjögur af dótturfyrirtækjum Norwegian í Svíþjóð og Danmörku eru gjaldþrota samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu. Um er að ræða fyrirtæki sem halda utan um starfsmannamál og ráðningasamninga við áhafnir félagsins í löndunum tveimur. Hjá dótturfélögunum fjórum voru samtals í vinnu 1571 flugmenn og 3134 flugfreyjur og flugþjónar.

Um tvö þúsund flugliðar Norwegian í Noregi, Frakklandi og Ítalíu verða ekki fyrir áhrifum af þessari aðgerð. Aftur á móti hefur flugfélagið sagt upp samningi sínum við þau fyrirtæki sem sjá um samninga við áhafnirnar í Bretlandi, Bandaríkjunum, Finnlandi og á Spáni. En Norwegian hefur verið mjög stórtækt í flugi milli Íslands og Spánar og  nú minnka sennilega líkurnar á að félagið haldi þeim flugleiðum úti mikið lengur.

Jacob Schram, forstjóri Norwegian, segir í tilkynningu að ákvörðunin um að setja félögin í þrot hafi verið mjög erfið. Hann ítrekar að stjórnendur félagsins vinni nú myrkranna á milli við að bjarga félaginu og koma því í gegnum núverandi krísu. Takist það þá eigi margir starfsmenn afturkvæmt segir forstjórinn.

Líkt og Túristi fór yfir nýverið þá hefur vöxtur Norwegian verið gríðarlega hraður síðustu ár og haft veruleg áhrif á stöðu Icelandair.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.