Eiga íslenska ríkið og Icelandair samleið?

Nú gætu ráðamenn þjóðarinnar þurft að tryggja samgöngur til og frá landinu til lengri tíma. Á sama tíma þurfa þeir að spyrja sig hvort Icelandair sé rétti vettvangurinn fyrir slíkt.

Þota Icelandair tekur á loft frá Kansas City. Mynd: Icelandair/Sigurjón Ragnar

Þær fáu flugferðir sem Icelandair stendur fyrir þessar vikurnar eru á kostnað ríkisins en á sama tíma eru unnið að því að styrkja fjárhagstöðu félagsins. Bæði til að komast í gegnum núverandi krísu og eins til geta sótt fram þegar fólk getur ferðast á ný. Hvenær sá dagur rennur upp veit enginn en flugáætlun Icelandair gæti dregist saman um meira en helming næstu mánuði ef spár ganga eftir. Tap félagsins í ár verður þar með mælt í tugum milljarða króna sem bætist þá við mikinn taprekstur í fyrra og hittifyrra.

Til að bæta gráu ofan á svart þá byggir upprisa félagsins að töluverðu leyti á því að farþegar treysti sér upp í Boeing MAX þoturnar þegar að því kemur. Þess háttar flugvélar verða nefnilega að öllu óbreyttu uppistaðan í flota félagsins á næstu árum. Slæm afkoma dótturfélaga og alls kyns ótengdar fjárfestingar flækja stöðuna enn frekar.

Icelandair þarf því ekki bara gríðarlega mikið fé og heldur líka fjárfesta sem geta tekist á við þessa miklu óvissu sem framundan er. Í hluthafahópnum í dag eru íslenskir lífeyrissjóðir áberandi en stærsti hluthafinn er þó bandarískur vogunarsjóður. Nú er stóra spurningin hvort þessir hluthafar eru til í að taka áhættuna og halda Icelandair á floti á meðan tekjurnar eru engar eða hvort ríkið þurfi á endanum að koma félaginu til bjargar og jafnvel eignast meirihluta í því.

Ef það yrði raunin þá myndi Icelandair bætast í fjölmennan hóp flugfélaga sem eru að öllu eða einhverju leyti í eigu hin opinbera. Sá hópur fer svo stækkandi þessa dagana vegna kórónuveirukrísunnar. Nýjasta dæmið um það er að bandaríska ríkið hefur nú kost á því að fá veð í hlutafé stærstu flugfélaganna þar í landi.

Í nágrannalöndunum hefur opinbert eignarhald í flugfélögum lengi tíðkast. Ríkisstjórnir Frakka og Hollendinga fara hvor um sig fyrir 14 prósenta hlut í AirFrance/KLM samsteypunni og Svíar og Danir eiga samtals þrjátíu prósent í SAS. Lettneska ríkið á áttatíu prósent hlut í Air Baltic og finnska forsætisráðuneytið heldur utan um 56 prósent hlut í Finnair. Í farþegum talið er finnska flugfélagið um fjórum sinnum umsvifameira en Icelandair og hefur, öfugt við íslenska félagið, verið rekið með hagnaði síðustu tvö ár.

Í svari frá finnska stjórnarráðinu, við fyrirspurn Túrista, segir að ástæðurnar fyrir opinberu eignarhaldi séu nokkrar. Þar á meðal að styrkja stöðu Finnlands sem miðstöðvar fyrir alþjóðaflug sem aftur tryggi beinar flugsamgöngur og styðji við samkeppnishæfni landsins. Í svarinu er einnig bent á eignarhaldið sé hluti af innviðum landsins og vörnum. Þess má geta að íslenskir fjárfestar voru á árunum fyrir hrun næst stærstu hluthafarnir í Finnair á eftir finnska ríkinu.

Eyríki eins og Malta og Fiji, sem eigi mjög mikið undir ferðaþjónustu eins og við, eiga meirihluta í umsvifamestu flugfélögum sinna landa og hægt er að finna mörg fleiri dæmi um slíkt eignarhald. Það yrði því ekki heimsfrétt ef íslenskir ráðamenn ákveða að kaupa hlut í Icelandair til að koma félaginu til bjargar.

Það gæti meira að segja orðið arðbært til lengri tíma líkt og hagnaður Finnair síðustu ár er dæmi um. Hvort Icelandair, eins og það fyrirtæki er skipulagt í dag, er svo rétta félagið til byggja samgöngur til og frá landinu á er svo önnur spurning sem ráðamenn þjóðarinnar þurfa að spyrja sig að.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.