Eigandi WOW vill líka blása lífi í Alitalia

Michele Roosevelt Edwards og viðskiptafélagar hennar hjá USAerospace Associates hafa lýst áhuga sínum á að bjarga ríkisflugfélagi Ítalíu.

alitalia nytt
Myndir: Alitalia

Biðin eftir því að WOW air hefji flug á ný hefur verið mun lengri en gert var ráð fyrir en í ljósi aðstæðna í heiminum þá má fullyrða að það hefði reynst félaginu dýrkeypt ef starfsemin hefði farið á flug nú í ársbyrjun. Reyndar hefur aldrei legið almennilega fyrir hvort áherslan hjá WOW verður á frakt- eða farþegaflutninga en fyrrnefndi geirinn gengur skiljanlega mun betur í dag en sá seinni.

Það hefur einnig leikið vafi á því hvort hið endurreista WOW air verðir með íslenskt flugrekstrarleyfi en það hefur þó komið fram að félagið ætlar sér að halda úti starfsemi á Ítalíu. Og nú sjá Michele Roosevelt Edwards og viðskiptafélagar hennar hjá USAerospace Associates, eiganda WOW air, tækifæri í frekari landvinningum á Ítalíu. Því samkvæmt frétt flugritsins Ch-aviation þá hafa þau lýst yfir áhuga sínum á að kaupa Alitalia, stærsta flugfélag Ítalíu. Það flugfélag hefur lengið barist í bökkum og verið í höndum ítalska ríkisins beint eða óbeint síðustu ár.

Í tilkynningu frá Edwards sem birst hefur í ítölskum fjölmiðlum, þar á meðal á vefsíðu dagblaðsins la Repubblica, segir að það sé von hennar að reisa Alitalia upp til fyrri dýrðar og til þess hafi hún fjármagn upp á 1,5 milljarð dollara. Það jafngildir um 213 milljörðum króna eða um tuttugufaldri þeirri upphæð sem hún hefur sagst ætla að leggja í WOW air.

Edwards ítrekar í tilkynningu sinni til ítalskra fjölmiðla að fyrirtæki hennar USAerospace Associates sé um 60 milljarða króna virði og með starfsemi í fimm löndum, þar á meðal í tveimur Evrópuríkjum, þ.e. Austurríki og Íslandi.

Hvað sem verður um áformin um yfirtöku á Alitalia þá hafa stjórnendur þess sent heim 6.860 starfsmenn síðustu daga.