Ekki útlit fyrir Spánarflug Norwegian héðan í vetur

Flugfloti Norwegian verður skorinn niður um ríflega eitt hundrað þotur og umsvifin munu takmarkst við Noreg út þetta ár í það minnsta ef tillögur stjórnenda félagsins verða samþykktar. Þar með detta út áætlunarferðir Norwegian milli Íslands og Spánar.

Mynd: Norwegian

Jafnvel þó flugsamgöngur komist í lag nú í haust þá er ekki viðbúið að þotur Norwegian verði jafn tíðir gestir á Keflavíkurflugvelli næsta vetur og þær voru á nýliðnum vetri. Þá hélt Norwegian úti flugi hingað frá fimm spænskum flugvöllum en nú er hætt við að allar þessar ferðir leggist af. Þetta má lesa út úr nýrri viðskiptaáætlun sem stjórnendur Norwegian kynntu í morgun.

Tilgangurinn með áætluninni sannfæra lánadrottna um að breyta skuldum í hlutafé en það er forsenda fyrir því að félagið lifi af yfirstandandi krísu.

Stjórnendur Norwegian gera það að tillögu sinni að umsvifin nú í sumar og út næsta vetur takmarkist nær eingöngu við flug til og frá Noregi. Það verður svo fyrst árið 2022 sem starfsemin verði með eðlilegum hætti á ný. Í áætluninni er þó tekið fram að ef eftirspurn verður fyrir hendi þá verði hægt að bæta við flugferðum í byrjun næsta árs þrátt fyrir að flugfloti félagsins muni minnka til muna.

Af þessu má ljóst vera að Íslandsflug Norwegian verður sennilega ekki neitt nú í sumar og næsta vetur. Á þessu tímabili mun félagið ekki heldur veita Icelandair samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku því þær ferðir eiga að hefjast á ný næsta vor.

Þess ber að geta að íslenskar ferðaskrifstofur eins og Heimsferðir, Úrval-Útsýn og Vita eru með Spánarferðir á dagskrá nú í sumar og næsta vetur.