Endanlegt uppgjör milli Icelandair og ríkisins liggur ekki fyrir

Icelandair hefur nú í tvígang gert samkomulag við samgönguráðuneytið um flug til og frá landinu. Ekki er ljóst hversu hár reikningurinn verður.

Boston er ein þeirra þriggja borga sem Icelandair flýgur nú til á vegum samgönguráðuneytisins. Mynd: Lance Anderson / Unsplash

Stjórnvöld hafa nú í tvígang samið við Icelandair um flug til Evrópu og Bandaríkjanna en með þessu eru tryggðar lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu vegna Covid-19 faraldursins. Um er að ræða flug til Boston annars vegar og London eða Stokkhólms hins vegar.

Núgildandi samningur rennur út þann fimmta maí og nær til samtals 32 flugleggja. Ríkið greiðir að hámarki 100 milljónir kr. vegna samningsins en mögulegar tekjur Icelandair af flugunum eiga að lækka greiðslur.

Hámarks upphæðin var sú sama í samkomulaginu sem gilti dagana 27.mars til 15.apríl en samkvæmt svari samgönguráðuneytisins þá liggur endanlegt uppgjör vegna þess tímabils ekki ennþá fyrir. Það er því ekki ljóst hversu miklar tekjur Icelandair hafði sjálft af flugferðunum til borganna þriggja þessa daga sem fyrri samningurinn var í gildi.

Sem fyrr segir þá fær Icelandair í mesta lagi 100 milljónir fyrir þær flugferðir sem félagið mun fljúga á vegum stjórnvalda næstu þrjár vikur eða svo. Miðað við flugtíma og ferðafjölda til borganna þriggja þá jafngildir það nærri 795 þúsund krónum á hvern klukkutíma sem þoturnar eru á flugi.

Í frétt á vef samgönguráðuneytisins segir að millilandaflug gegni afar mikilvægu öryggishlutverki fyrir íslenska þjóð og þessar flugtengingar eru meðal annars nauðsynlegar til að tryggja að íslenskir ríkisborgarar, sem staddir eru erlendis, geti fundið sér leið heim. Samningurinn byggir á heimild í lögum um opinber innkaup til samningskaupa án útboðs vegna neyðarástands af ófyrirsjáanlegum atburðum. „Við slíkar aðstæður væri ekki unnt að standa við fresti í útboðum,“ segir í fréttinni.

Ráðuneytið gerði aftur á móti verðkönnun áður en gengið var til samninga við Air Iceland Connect um flug til Ísafjarðar og Egilsstaða frá Reykjavík. Samningurinn gerir ráð fyrir að farnar verði þrjár til sex ferðir vikulega milli Reykjavíkur og Egilsstaða en þrjár ferðir á viku milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.

„Innanlandsflug gegnir afar mikilvægu hlutverki fyrir íbúa landsbyggðarinnar og fá svæði verða fyrir meiri skaða af niðurfellingu flugs en norðanverðir Vestfirðir og Austurland. Á þessum svæðum er ekki val um almenningssamgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í tilkynningu.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.