Fá að endurgreiða ferðamönnum með inneignarnótum

Íslendingar sem eiga bókaðar ferðir til útlanda og útlendingar sem eiga ferðir til Íslands fá inneignarnótur í stað endurgreiðslu ef ferðalagið er á dagskrá fyrir lok júnímánaðar.

Mynd: Iceland.is

Íslenskar ferðaskrifstofur verða að endurgreiða ferðir, sem felldar eru niður, innan tveggja vikna samkvæmt reglum sem gilda innan EES-svæðisins. Þennan rétt farþega ítrekaði Atvinnuvegaráðuneytið í síðasta mánuði. Núna er aftur á móti stefnt að því að koma til móts við þann vanda sem endurgreiðslukrafan veldur ferðaskrifstofum með lagabreytingu. Dæmi eru nefnilega um að ferðaskrifstofum gangi illa að fá endurgreiddan kostnað hjá sínum birgjum, t.d. hjá flugfélögum.

Á vef stjórnaráðsins segir að nýju ákvæði verði til bráðabirgða bætt við lög þar sem ferðaskrifstofum verði heimilt að endurgreiða ferðamönnum allar greiðslur í formi inneignarnóta. Þetta á aðeins við um ferðir sem afpantaðar eru eða aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Inneignarnóturnar verður að innleysa að liðnum tólf mánuðum. „Gert er ráð fyrir að heimildin afmarkist við ferðir sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar og áttu að vera farnar á tímabilinu 15. mars til og með 30. júní 2020,“ segir á vef stjórnarráðsins.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.